Saturday, February 24, 2007

Moldvarpan

Vegna fjölda áskorana (eða allavega tvennra) kemur hér sagan um norska tónheyrnarkennarann. Um er að ræða konuna sem hefur yfirumsjón með tónheyrnarkennslunni í skólanum.

Fyrir einhverjum árum síðan voru gerðir svokallaðir raunveruleikaþættir fyrir norska sjónvarpsstöð. Þættirnir báru titilinn “Moldavarpan” og gengu út á að þátttakendur leystu ákveðin verkefni af hendi. En einn af meðlimunum reyndi í laumi að koma í veg fyrir að hinum þátttakendunum tækist að leysa verkefninn. Sá var kallaður “Moldvarpan”.

Umræddur tónheyrnarkennari tók eitt sinn þátt í slíkum sjónvarpsþætti. Þátttakendur leystu hvert verkefnið á fætur öðru. Svo kom að verkefni sem fólst í að læra ansi langa talnarunu utanað. Tónheyrnarkennarinn lýsti því yfir, sigrihrósandi, að hún vissi nú aldeilis besta ráðið til að leysa þetta verkefni. Það var að sjálfsögðu að búa til lag (reikna fastlega með að hún hafi notað do-re-mí, eða eitthvað ámóta kerfi til að ákvarða tónhæð hverrar tölu).

Á meðan tónheyrnarkonan samdi lag, hæstánægð með notagildi eigin starfs, ræddu aðrir meðlimir um að sennilega væri hún “Moldvarpan”, þar sem þetta væri fáránleg aðferð til að leysa verkefnið.

Þar fór þetta notagildi tónheyrnar fyrir lítið.