Saturday, March 03, 2007

Vetrar(ó)hljóðahátíðin, 1. hluti

Jæja. Þetta var nú aldeilis löng vika. Sérstaklega síðustu dagarnir. Kom reyndar á óvart hvað fyrstu tónleikarnir (á mánudag, þriðjudag og miðvikudag) voru ágætir. Náði ekki að pirra mig neitt af ráði yfir þeim. Og sumt var hreinlega fínt! Þar má helst nefna sönglagatónleika, þar sem nemendur skólans fluttu splunkuný sönglög eftir norsk tónskáld. Flest afar frambærilegt og þægilegt að hlusta á. Kom skemmtilega á óvart.

Þegar kom fram á fimmtadag fór þetta þó að versna. Þá var fjallað um “impróviseraða nútímatónlist” (nú hefur orðið “impróvisering” verið þýtt sem “snarstefjun” á íslensku. En það orð á engan vegin við hér. Engin stef í gangi).
Það snýst semsagt um að tónskáld skilar hljóðfærahópi einhverskonar skissu af hálfkláruðu tónverki, og svo geta hljóðfæraleikararnir spilað það sem þeir vilja af því verki. Eða bara eitthvað annað, ef þeim sýnist svo. Þetta var hugsað til að fá djasstónlistarmenn til að spila nútímatónlist. Þeim fannst voða gaman. Spiluðu eins sterkt og þeir gátu (allir, allan tímann) það sem þeim sýndist, þangað til þeir nenntu ekki meir.
Niðurstaða: Læti í x langan tíma.

Á einum tónleikum var meðal annars sýnd nýstárleg aðferð til að búa til salat. Í miðju verki fóru slagverksleikararnir að skera niður grænmeti á borði fyrir miðju sviðinu. Svo hættu þeir því og héldu áfram að spila á trommurnar sínar. Undir lok verksins slettu þeir káli, sem geymt hafði verið í skálum með vatni, yfir grænmetið. Skondið. Ekki síst þar sem þessir trommarar voru annars vegar langur og mjór strákur, og hins vegar lítill og þybbinn strákur.
Niðurstaða: Eitt skondið atriði. Annars ekkert markvert.

Eftir þessa tónleika fór allt á versta veg ...

Framhald á morgun. Bíðið spennt.