Sunday, March 04, 2007

Vetrar(ó)hljóðahátíðin, 2. hluti

Í gær fór ég á fyrirlestur þar sem sett var met í almennum leiðinlegheitum. Þjóðverji að nafni Nicolaus A. Huber ræddi þar mjög nákvæmlega eitt af sínum verkum. T.d. fór hann mjög ítarlega í hvers vegna hann notaði mest einhverja þrjá tóna. Og hvernig ýmis önnur tónskáld hefðu notað akkúrat þessa sömu þrjá tóna (þetta hefði verið hægt að gera með hvaða þrjá tóna sem er og GEISP). Svo ræddi hann leeeengi um takttegundir. Hann notaði sko mest þrí- eða fjórskiptan takt. Og 3+4=7. En svo kom taktur í 5 og svo í 2. Og viti menn 5+2 eru líka 7! Þvílík tilviljun! Hann hafði líka notað hraðamerkingar eins og 56, og 84, sem hvuru tveggja eru tölur sem ganga upp í 7! Maðurinn er greinilega snillingur!
Eins og gefur að skilja var þetta tónverk alveg ömurlega leiðinlegt (og jafnvel leiðinlegra eftir að hafa heyrt fyrirlesturinn).
Þegar þarna koma við sögu var ca. klukkutími búinn og klukkutími eftir af fyrirlestrinum. Mér var orðið óglatt af einskærum leiðindum og hætti því að mestu að fylgjast með (fannst aðeins of dónalegt að standa upp og fara, þar sem áheyrendur voru mjög fáir. Skiljanlega).
Niðurstaða: Það getur verið gaman að leysa Sudoku, en það er ekkert gaman að skoða Sudoku-þrautir sem einhver annar hefur leyst.

Eftir fyrirlesturinn voru tónleikar með verkum eftir kallinn. Tveir langir klukkutímar. Það sem bjargaði þeim var hvítvín í hléi. Eftir hléið var tónverk með lyktum. Tónverkið samanstóð af einhverju háværu suði og texta, sem var of háfleygur til að nokkur skildi hvað væri verið að fara. Lyktirnar voru framleiddar með reykelsum og spreyjum (sem lyktuðu eins og reykelsi). Voða sniðugt. Þangað til maður kom heim. Þá var þetta spurning um alþrif á öllu sem hafði verið í umræddum tónleikasal.
Niðurstaða: Ef maður getur ekki samið almennileg lög, hvernig væri þá að gera eitthvað annað sér til lífsviðurværis og hlífa einhverjum vesalings tónsmíðanemum (og óheppnum þýskum kjeeellingum sem áttu von á einhverju allt öðru) við þessum hörmungum. Sumt er nefnilega bara gaman fyrir mann sjálfan. Ekki til að sýna öðrum (sbr. Sudoku-dæmið).
Og í sambandi við textanotkun: Hvernig væri nú að koma niður á jörðina, eða aðeins nær henni allavega. Að hafa texta sem enginn skilur (og fjallar yfirleitt um orku alheimsins, eða eitthvað álíka) er ekki kúl lengur. (Ef það var þá einhverntímann kúl).

Síðustu tónleikarnir voru í dag. Það voru slagverkstónleikar. Voða gaman framan af. En tónleikarnir urðu allt of langir. Ótrúlegt að fólk skuli ekki fatta að stilla tónleikalengd í hóf. Sérstaklega þegar um nútímatónlist er að ræða.

Það vakti athygli mína hverjir þessir fáu voru sem mættu á viðburði þessarar hátíðar:
- Fyrsta árs nemar í tónsmíðadeildinni voru duglegir. Mættu yfirleitt allir. Alltaf.
- Tveir annars árs nemar (af fjórum) mættu einstaka sinnum.
- Einn fjórða árs nemi (af fimm) mætti af og til.
- Mastersnemar í tónsmíðadeild mættu ekki.
- Prófessorar í tónsmíðadeild mættu eiginlega aldrei (nema verið væri að flytja verk eftir þá). Nema auðvitað Daninn sem skipulagði dæmið. Hann mætti alltaf.
- Aðrir sem mættu voru aðallega þýskar kjeeellingar (útaf gestatónskáldinu sem var Þjóðverji) og örfáir aðrir.

Á þessari upptalningu má glöggt sjá að áhugi fyrir nútímatónlist er lítill sem enginn. Þegar þeir sem starfa við að kenna fög tengd tónsmíðum mæta ekki einu sinni á slíka viðburði á vegum skólans, þá held ég að það sé alveg hægt að draga eftirfarandi ályktun:
Nútímatónlist er leiðinleg. Það finnst öllum. Meira að segja þeim sem hafa atvinnu af henni.

Af því tilefni koma hér skilaboð til tónskálda:
Hvernig væri nú að semja tónlist sem fólk gæti mögulega haft ánægju af að hlusta á. Ef það er ekki tilgangurinn, hver er hann þá?