Monday, March 05, 2007

Vetrar(ó)hljóðahátíðin, eftirmáli

Á einum fyrirlestrinum fór fram smá kynning á nútímatónlistarhátíð sem fram fer árlega í Gobi-eyðimörkinni í Mongólíu. Þar er ekki gert ráð fyrir meira en 50-60 erlendum gestum, og innfæddir yfirgefa tónleikasvæðið ef þeim leiðist (þú getur t.d. gleymt því að koma með tónverk yfir 5 mínútur. Þá eru sko allir farnir). Spurning hvort þetta sé ekki bara heimsins besta staðsetning fyrir slíka tónlistarviðburði.

Það sem gleymist oft í umræðunni um nútímatónlist þessa dagana, er að nú er fólk farið að semja “lög” (áheyrilega tónlist) aftur (loksins). En þau tónverk týnast yfirleitt í ruglinu. Ég vona að þróunin í tónsmíðum verði í átt að “afþreyingu” framvegis.

Í tónsmíðatíma í haust sagði kennarinn minn um eitt lag sem ég hafði samið, að það væri fínasta afþreying. Eftir þessa athugasemd spurði hann hvort ég væri móðguð. Ég hváði og skildi ekki af hverju ég ætti að vera móðguð. Er ekki einmitt tilgangurinn að búa til afþreyingu?

Og þá er spurningin: Hvað er afþreying?
Í mínum huga er afþreying allt sem maður gerir utan skóla, vinnu og ýmissa daglegra verka, sem ekki verður komist hjá. Öll áhugamál, sjóvarp, leikhús, kvikmyndir o.s.frv. Allt er þetta afþreying. Þannig að auðvitað er maður glaður þegar maður hefur samið “afþreyingartónlist”. Tónslistariðnaður er afþreyingariðnaður. Það er bara ekkert flóknara en það. En því miður eru alltof mörg tónskáld sem virðast ekki vilja skilja þessa einföldu staðreynd. Þau tónskáld segja að tónlist eigi að: “vera áhugaverð og hafa einhverja ákveðna dýpri merkingu”.

Þetta er bull. Maðurinn á götunni vill ekki þurfa að kynna sér tónverk í þaula til þess að geta farið á tónleika. Hann vill geta farið á tónleika og notið þess sem fram fer, án þess að vinna einhverja heimavinnu fyrst.

Eða er það ekki? Er ég kannski bara eitthvað rugluð? Eru tónskáldin sem semja alla þessa tónlist sem er “áhugaverð og inniheldur dýpri merkingu” í alvöru svo vitlaus að þau sjá ekki þá einföldu staðreynd að tónlist er afþreying?

Jah, maður spyr sig.