Wednesday, March 14, 2007

Spennan í hámarki

Núna er inntökuprófavika í skólanum.

Sjálf þreytti ég slíkt próf fyrir ári síðan og hafði gríðarlega gaman að. Svo gaman, að ég fékk að taka þátt í prófunum aftur í ár. Að þessu sinni þarf ég reyndar að láta mér nægja að sitja hinumegin við borðið, og fá talsvert minni athygli en fyrir ári. En á móti kemur að ég fæ að sitja inni í öllum prófunum, ekki bara einu.

Ég fékk semsagt það verkefni að vera fulltrúi nemenda í inntökuprófanefnd tónsmíðadeildar. Stefni hraðbyri í að verða kennarasleikja dauðans í þessum skóla, einsog þeim síðasta sem ég stundaði nám við.

Nú eru inntökuprófin í bachelor-námið búin. Að sjálfsögðu má ekkert gefa upp hverjir fá inngöngu fyrr en að viku liðinni. Þá verða niðurstöðurnar gerðar opinberar á heimasíðu skólans. En þess má geta að næsti árgangur mun marka tímamót í sögu tónsmíðadeildar þessa ágæta skóla. Meira um það að viku liðinni ...

Á föstudaginn fæ ég svo að fylgjast með inntökuprófum í meistaranám. Gæti komið sér vel ef mér dettur sjálfri í hug að þreyta slíkt próf einhvern daginn (sem ég efast reyndar um að eigi eftir að gerast).

Það koma upp ýmis skemmtileg atvik í tengslum við svona próf.

Dæmi:
Það var alger samstaða um hverjir fengju inngöngu. En þegar velja átti “varamann” (þann sem fengi inngöngu ef vilyrði fengist fyrir “aukaplássi” – sem gerist stundum), var samstaðan ekki lengur alger. Þessir rólyndismenn tóku jafnvel að hækka róminn. Að lokum var einn orðinn ansi pirraður og sagði:
“Ókei, það er bara ein leið til að útkljá þetta mál. Sláumst uppá það! Takið af ykkur gleraugun!”
Þar sem enginn þorði íann fékk hann að ráða. Fagmannleg vinnubrögð hér á ferð.
Hefði reyndar verið ansi gaman að sjá hópslagsmál virðulegra prófessora, sem flestir eru komnir yfir miðjan aldur.
Fyndnir kallar.