Wednesday, February 06, 2008

Ferðalagið

Helstu afrek og atburðir – í tímaröð

-Tók að mér forfallakennslu í heilan dag. Gekk furðuvel miðað við það að ég hef ekki kennt neinum neitt í nokkur ár.

-Komst í Sveitina með dyggri aðstoð Björgunarsveitar Þorlákshafnar. Þeir skutluðu okkur síðasta spölinn, sem var ófær fyrir rútuna (og flesta aðra bíla). Feiknastuð að rúnta í björgunarsveitarbíl.
Fróðleiksmoli ferðarinnar: Hummerjeppar virka ekki sérlega við íslenskar aðstæður (hann festi sig), en eru víst góðir í eyðimerkurakstri.

-Náðum ekkert að æfa fyrsta kvöldið í Sveitinni vegna óvenjulangs ferðatíma, en gátum þó gert klárt fyrir æfingar næsta dags. Þær æfingar gengu alveg ágætlega. Mér tókst reyndar ekki alveg að klára síðustu æfingu dagsins. Var orðið ansi óglatt þegar um hálftími var eftir. Eyddi kveldinu og nóttinni í að gubba meiru en ég hélt að væri pláss fyrir í einum maga, og liggja í hitamóki. Gallar ælupestar eru augljósir, en kostirnir er þessir:
1. Þær ganga að öllu jöfnu fljótt yfir.
2. Maður fær ágætis forskot í megrunarkeppninni.
Var orðin góð morguninn eftir og gat haldið áfram að æfa eins og ekkert hefði í skorist.

-Eftir Sveitaferðina var orðið ljóst að líkaminn hafði ákveðið að taka upp sitt eigið veðrakerfi sem svipaði mjög til þess sem var við lýði utandyra í það og það skiptið. Eftir stormasama helgi tók við kuldakast. Hitastig bæði innan líkama og utan var því lægra en eðlilegt getur talist. Og tók það nokkra daga fyrir líkamann að hætta að herma eftir veðurfarinu.

-Þremur dögum síðar tókst að drífa sig undan sænginni og mæta á mikilvægan leikritunarfund með Sigguláru og leggja drög að frábæru barnaleikriti sem verður vonandi tilbúið í sumar.

-Tveimur dögum þarsíðar fékk ég upphringu eftir um eins tíma nætursvefn þar sem téð Siggalára var á barmi barnseignar, en barnapíurnar sem ætluðu að taka að sér þau börn sem þegar voru fædd, voru óvart fjarri góðu gamni. Ég dreif mig því á stað í gegnum miðbæinn (eftir árangurslausar tilraunir til að ná í leigubíl. Þeir hafa sennilega flestir verið í því að skutla fullu fólki í miðbæinn. Enda laugardagskvöld) og þótti ekki sérlega geðslegt. Fullt fólk er ógeðslegt í augum bláedrú og hálfsofandi fólks á hraðferð. Þegar barnapíustörfum var lokið, um tveimur tímum síðar (þegar næstu barnapíur tóku við), ákvað ég að forðast fjölmennið og ganga frekar í gegnum skuggalegar götur Þingholtanna. Örugglega stórhættulegt, en þess virði að sleppa við ógeðslega fulla fólkið sem gubbar á götuna, hefur hátt og kann ekki að klæða sig.

-Tónleikar Lúðrasveitarinnar voru daginn eftir þessar ósléttu næturfarir. Gekk alveg prýðilega og Útvarpið mætti á svæðið (öllum að óvörum) og tók upp tónleikana. Yfirileitt hefur einn leikmaður sveitarinnar séð um hljóðritun, og því aldrei verið vandamál að fá afrit að slíku. Spurning hvernig það á eftir að ganga í þetta skiptið.

-Náði að hitta nýjasta einstakling fjölskyldunnar eftir tónleikana og fyrir partýið. Hann er ponsulítill og það heyrist ekki hátt í honum (stór plús það). Meiri upplýsingar um drenginn er að finna á síðu móðurinnar.

-Þá var komið að lokahnykk ferðalagsins. Það var partý sem dróst heldur betur á langinn. Ég endaði á því að fara ekki að sofa áður en ég mætti í flug, og mætti svo beint í skólann þegar í Útlandið var komið. Á fjögurra tíma fyrirlestur um suð. Það var hetjulegt! en ég hef sjaldan verið jafn þreytt og þann daginn...