Friday, January 18, 2008

Reitt blogg

Tvær fyrstu kennsluvikurnar eftir jól búnar, og í næstu viku er frí. Allavega hjá tónsmíðadeildinni. Verkefnavika hjá hinum.

Endaði þessa skólaviku á að fara á fund með tónsmíðadeildarráðinu. Þar sitja nokkrar manneskjur og ræða ýmis atriði sem lúta að kennslutilhögun deildarinnar. Ég mætti til að koma með nokkrar tillögur að valfögum fyrir næsta ár. Ekkert sem hefði átt að vera mál, að mér fannst. En, ó, hvað ég hafði rangt fyrir mér. Komst að því að þetta blessaða ráð er aðallega þarna til að láta námsskrána líta vel út, hver á sínu sviði. En enginn virðist hafa neina yfirsýn yfir námið í heild sinni.

Þannig að þarna kom ég með þá frábæru tillögu að tónsmíðanemar gætu tekið kammertónlist sem valfag, og unnið þá tónverk fyrir/í samvinnu við ákveðinn kammerhóp. Ætti ekki að vera mikið mál. Kammertónlist er skyldufag fyrir alla hljóðfæraleikarana, og leiðbeinandi úr röðum kennara hefur umsjón með hverjum hóp. Jú, þetta var mál. Skyldi ekki alveg af hverju, en einhverjum fannst að það þyrfti þá að vera sérstakur tónsmíðaprófessor sem hefði umsjón með tónsmíðanemanum í hópnum.
Þvílíkt bull.

Það skrítna var hvað það kom ráðinu í opna skjöldu að það væri lítið samstarf milli tónsmíðanema annars vegar og hljóðfæraleikara hins vegar, og litlir möguleikar á flutningi verka tónsmíðanema á tónleikum innan skólans.

Staðreyndin er nefnilega sú að þó þetta sé góður skóli og mikið gert fyrir ennþá meiri peninga þá hefur eitt grundvallaratriði einhvernvegin gleymst. Maður getur nefnilega hæglega klárað öll sín 4 ár og útskrifast úr tónsmíðadeildinni án þess að fá eitt einasta verk eftir sig flutt á tónleikum innan skólans eða annars staðar. Það er fáránlegt.

Hins vegar finnst mér ekki að það ætti að fara út í að pína tónlistarfólk til að flytja ný verk. Að mínu mati á tónlistarmaður alltaf að hafa neitunarvald þegar kemur að þessu atriði. Hvort sem hann er í skóla eða ekki. Hljóðfæraleikarar og söngvarar virðast oft haldnir ákveðinni minnimáttarkennd þegar kemur að þessu atriði. Finnst þeir ekki hafa nógu mikið vit á nútímatónlist eða eitthvað. En þetta snýst ekki um þekkingu á nútímatónlist, heldur smekk hvers og eins.

Sumir taka sig til og panta tónverk hjá ákveðnum tónskáldum. Útkoma úr slíkum pöntunum getur verið misjöfn. Oft eru slík verk góð. Sem betur fer. En stundum ekki.
Þannig verk má líka neita að flytja. Jafnvel þó þú hafir pantað tónverk, þá ertu (yfirleitt) ekki skuldbundinn til að flytja það.

Er einmitt að lenda í því núna í norsku lúðrasveitnni að það var pantað verk hjá tónskáldi. Það er rusl. En sveitinni finnst hún skuldbundin til að flytja verk sem er samið að þeirra beiðni. Þetta verk mun að öllum líkindum verða til þess að lúðrasveitin mín fellur niður um deild í lúðrakeppninni.
Það er ekkert góð hugmynd að byggja lúðratónverk á því að hver og einn meðlimur sveitarinnar ákveði sjálfur hvaða tóna á að spila og hvenær. Það er bara kjaftæði og gefur glögglega til kynna að tónskáldið hafi ekki verið að vinna vinnuna sína. Það er jú einmitt hans vinna að ákveða hver á að gera hvað og hvenær. Og hvernig í ósköpunum á einhver dómnefnd að ákveða hvort þetta sé vel spilað eða ekki? Ég gef þessum flutningi einkunina núll fyrirfram. Það er bara of heimskulegt að láta sig hafa það að spila svona rusl.

Skilaboð til tónlistarfólks:
Ekki láta ykkur hafa það að spila hvað sem er. Ef ykkur finnst tónverk einhverra hluta vegna ekki áhugavert viðureignar, sleppiði þá að flytja það.