Monday, January 21, 2008

Slas

Fór á sax-kvintettæfingu í gær. Vorum reyndar bara tríó þar sem 1 var í London og 1 var slasaður. Þessi slasaði kom samt á æfinguna og söng með og taldi smá. Það var baritón-saxófónleikarinn sem slasaðist. Við hin höfum hann reyndar grunaðan um athyglissýki. Ef maður spilar á bassa-lúður fær maður nefnilega enga athygli. Einu skiptin sem einhver yrðir á mann er til að segja manni að láta heyrast minna í sér. Þess vegna höldum við að hann slasi sig viljandi. Til að fá athygli.
Fyrir jólin braut hann á sér hendina, og í þetta sinn ákvað hann að skera næstum af sér einn putta. Miðað við umbúðirnar á puttanum og lýsingar af öllu blóðinu þykir mér næstum ótrúlegt að honum hafi ekki blætt út.
Þrátt fyrir meiðslin lætur þessi bassa-lúðurspilari engan bilbug á sér finna og ætlar að mæta á æfingu á morgun til að fylgjast með (og láta vorkenna sér).

Kláraði áðan að setja allt dót á sinn stað eftir síðustu heimkomu. Ekki seinna vænna. Næsta niðurpökkun mun eiga sér stað á morgun.