Tuesday, January 06, 2009

Nýtt líf?

Kom aftur til Útlandsins í dag.
Byrjaði á að hitta stúlkuna sem dvaldi í íbúðinni minni í jólafríinu, og tók við lyklavöldum. Spjallaði aðeins við hana, og hún minntist aðeins á að hún hefði skilið eftir smá dót handa mér og breytt aðeins.
"Smá" og "aðeins" eru ekki alveg orðin sem ég hefði notað.
Hér í híbýlum mínum er mjög margt ekki einsog það var. Fékk nett sjokk þegar ég kom inn um dyrnar og ALLT var öðruvísi. Húsgagnaskipulagi hefur verið umpólað gjörsamlega og þetta "smá dót" er sjónvarp, agalega "fancy" lampi, rauð pottaplanta og nýtt rúmteppi. Svo eitthvað sé nefnt. Í tuttugu fermetra íbúð breytir þetta ansi hreint miklu. Þannig að nú líður mér eins og ég búi í innlit-útlit þætti.
Ætlaði fyrst að breyta strax í einsog þetta var, en hef tekið þá ákvörðun að bíða með það í nokkra daga (og þá verð ég pottþétt löngu hætt að pæla í þessu - þannig að þetta verður örugglega svona þar til ég flyt út... eða næsti leigjandi breytir fyrir mig).

En hvað í andsk... hef ég að gera með sjónvarp og rauða pottaplöntu?