Thursday, December 18, 2008

Fréttir vikunnar

Manndrápshálkan entist ekki lengi í þetta skipti. Sem betur fer. Og nú er snjór og indælis veður með frosti og logni og björtu uppá hvern einasta dag. Prýðilegt alveg hreint.

Einhverjum mönnum þótti það afar góð hugmynd í þessu árferði að grafa skurð fyrir utan húsið. Það gerir það að verkum að erfitt er að komast lengra út úr húsi en rétt út fyrir dyr.
Þessi gröftur hefur ennfremur aukið aðeins á spennu hverdagsins:
-Á laugardaginn var kaldavatnslaust í nokkra tíma. Notaði tækifærið og smakkaði vont nammi. Eitthvað víetnamskt ógeð sem heitir "Khua Thaoui" eða eitthvað álíka. Lítur út eins og lakkrís en er EKKI þannig á bragðið. Ekki besta hugmynd í heimi að smakka vont nammi þegar ekki er hægt að fá sér vatn á eftir.
-Á sunnudaginn virkuðu ekki ofnarnir. Manni pípari kom og reddaði málunum með því að skrúfa aðal-ofnakranann í kjallaranum á fullt. Gott mál.
-Á mánudaginn var rafmagnslaust í smástund. En það var nú bara stutt.
-Á þriðjudaginn var kominn lítill heitur hver rétt fyrir ofan tröppurnar. Voða sætt, en örugglega ekkert rosalega sniðugt.
-Í dag hefur ekkert heitt vatn verið fáanlegt í húsinu. Sem þýðir ennfremur enginn hiti á ofnunum. Aftur. Og nú, síðdegis, er alveg byrjað að vera dáldið kalt inni. Enda sjö stiga frost úti. Vona bara að heita vatnið komi áður en nóttin kemur. Er ekki alveg til í útilegufílinginn á þessum árstíma.
Gröfumennirnir eru örugglega að leggja sitt af mörkum. Þeir eru allavega að grafa meirihluta sólarhringsins. Ekkert atvinnuleysi þar á bæ.

Þetta voru helstu fréttir vikunnar.