Thursday, December 04, 2008

Á heimaslóðum

Þá er maður mættur í foreldrahúsin. Hress að vanda.

Ferðalögin gengu vel öll með tölu: Útland - Ísland - Sveitin (takk kærlega fyrir skutlið Þórunn Gréta) - Höfuðborgin - Egilsstaðir City, hvar ég mun dvelja fram á nýja árið.

Hef verið alnets-sambandslaus í rétta viku, og hefur það orsakað gríðarlegt tölvupóstflóð sem þarf að komast í gegnum. Það sem af er þessum degi hefur farið í það. Sé ekki fram á að vera verkefnalaus hér á landsbyggðinni, þar sem ég hef tekið með mér töluvert af skóla- og vinnuverkefnum. Vona að ég nái að klára sem mest áður en haldið verður aftur til Útlandsins.

Lenti í tölvuveseni meðan ég dvaldi í Höfuðstaðnum. Einmitt að morgni dagsins sem átti að fara í tölvuvinnu (auðvitað). Sá dagurinn fór því mestallur í heimsóknir á hin ýmsustu tölvuverkstæði.
Afar áhugavert að sjá mismunandi nálganir á viðfangsefnið. Var sjálf nokkuð viss um að hleðslutækið væri bilað. Á fyrsta verkstæðinu var tölvan sjálf úrskurðuð látin. Það þóttu mér ekki góðar fregnir og við tók nett taugadrulla af minni hálfu. Ákvað að leyta annað og fá annað álit á sjúkdómsgreininguna. Þar á bæ var tölvan hins vegar úrskurðuð sprelllifandi (bara sofandi) og hleðslutækið með undarlegan geðsjúkdóm - þar sem það sýndi öll merki um að vera lifandi þrátt fyrir að neita að veita rafmagni í tölvuna. Þetta þóttu mér afbragðsgóðar fregnir, og fór á þriðja staðinn til að festa kaup í viðeigandi hleðslugræju. Þar á bæ þurfti ég nánast að beita hörðu til að fá að kaupa varahlutinn, þar sem starfstúlkan sagði ekkert að geðsýkta hleðslutækinu og vildi láta leggja tölvuna inn til frekari rannsókna.
Að lokum tókst að sannfæra stúlkuna um vafasama fortíð hleðslugræjunnar og heilbrigði tölvunnar. Nýtt hleðslutæki fékkst keypt og allir voru glaðir.

Þetta gerði það hins vegar að verkum að ér náði nú ekki að klára alla þá vinnu sem ég ætlaði að skila af mér meðan ég dvaldist í Höfuðstaðnum (skilaði samt mestu), og ekki náði ég heldur að hitta allt fólkið sem ég ætlaði mér.

Hins vegar skilst mér að margir hafi hugsað sér að heimsækja heimaslóðir hér eystra í jólafríi komandi.

Hverjir koma?
Réttupphend