Wednesday, December 10, 2008

Mannréttindi

Síðan ég kom hingað austur hefur veðurfar verið með besta móti. Frost, ekki mikið rok (jafnvel logn af og til) og snjóalög með meira móti, sem gerir birtustig bærilegra meðan dagsljóss nýtur við.
Nú er hins vegar komin hláka, og er spáð meira af slíku næstu daga.

Þegar maður er staddur annarsstaðar en á Egilsstöðum city, og spáð er hláku hugsar maður: "oj, en fúlt". Þegar maður er staðsettur hér í bæ er hugsunin meira: "NEEEEEI". Hér þýðir hláka nefnilega bráð lífshætta um leið og fæti er stigið út fyrir dyr.
Fór í hættuför í kaupfélag staðarins áðan og svitnaði af áreynslunni við það eitt að halda mér á löppunum þessa nokkur hundruð metra. Mætti einni heldri frú á heimleiðinni og gat ráðlagt henni hvar hættuminnst væri að ganga. Það var góðverk dagsins. Vona bara að umrædd frú lifi ferðalagið af.

Þetta manndrápsástand varir að jafnaði um helming vetrar hér í bæ.

Mér þykja sjálfsögð mannréttindi að geta farið út án þess að eiga það á hættu að löppunum sé kippt undan manni fyrir tilstilli æðri máttarvalda.