Thursday, September 17, 2009

Risabaun

Það er ýmislegt sem maður þarf að venjast þegar maður er á ferðinni og gistir aldrei tvær nætur á sama stað. En það venst allt ótrúlega hratt. Ákveðin kúnst að gleyma ekki neinu neinsstaðar. En það hefur hingað til tekist fullkomlega. Held ég hafi ekki skilið eftir mig svo mikið sem einn sokk enn sem komið er. Og svo er það þetta með símann. Eða símaleysið öllu heldur. Það vandist um leið. Er ekki búin að vera í símasambandi í tæplega 3 vikur, og er ekki að sjá að það skipti mig neinu máli. Fyndið. Svona hlutur sem maður hélt að maður gæti ekki lifað án.

Ágætis samkomulag er á meðal hljómsveitarmeðlima, og kannski einum of mikil samheldni stundum. Þegar við mættum hingað til Chicago vorum við t.d. öll í eins bolum (sem við höfðum fengið gefins deginum áður). Náunginn sem við gistum hjá hélt að við værum eitthvað skrítin. Kvöldið eftir (í gærkvöldi) vorum við flestöll í hvítum skyrtum. Þetta er sko jakkafatahljómsveit. Þar með var hann sannfærður um að við værum ekki alveg í lagi.

Vorum túristar í Chicago í gær. Það var gaman. Það sem stóð upp úr hér í borg var tvímælalaust risastór baun (eða nýra eða eitthvað) úr málmi.