Saturday, October 22, 2005

Nýr sambýlingur

Komst að því í gærkveldi hvað ég bý í ógurlega vinsælu húsi. Hingað til hafa stundum verið gestir, svona eins og gengur. En ekkert margir og ekkert alltaf. Í gærkveld var skyndilega boðað til húsfundar í Húsi E. Slíkt hefur ekki gerst áður. Umræðuefni fundarins var hvort við ættum að taka inn nýjan íbúa í húsið okkar. Það eru nefnilega einstaklingar hér í skólanum sem eru ekki jafn heppnir með sambýlinga og við í Húsi E. Ein stelpa hafði semsagt lagt fram beiðni um að fá að flytja inn í Hús E. Við ákváðum að neita þeirri beiðni, aðallega vegna þess að við þekkjum hana ekki mjög mikið, og svo á hún frekar pirrandi vini. Þ.á.m. er íslenski strákurinn. Hann hagar sér einmitt eins og flestir íslenskir drengir á þessum aldri. Þarf að fá ALLA athyglina ALLTAF, og getur því verið mjög þreytandi til lengdar.
Hins vegar ákváðum við að bjóða annarri stúlku að hafa vetursetu í Húsi E ef hún óskaði þess. Sú hefur verið fastagestur frá upphafi skólaárs og nýlega komust íbúar Húss E að því að hún væri ekki allskostar ánægð í sínum eigin híbýlum. Hún mun sennilega flytja inn á næstu dögum. Þá verða íbúar Húss E átta talsins, og níu ef við teljum Drauga-Álf með.
Í kvöld er mexíkanskt þema. Mexíkanskur matur og svona. Og svo er Hrekkjavökukvöld á mánudagskvöldið (já, ég veit að það er viku of snemma, en svona er þetta bara). Þá fæ ég að spila á blokkflautu í tré. Það verður gaman.