Partý eldri borgara
Í skólanum mínum hefur nú verið standandi eldriborgarapartý síðan á fimmtudaginn. Ekki veit ég ástæðuna fyrir þessum ótrúlega langa gleðskap, en ég vona að viðkomandi eldriborgarar hafi haft leyfi til að nýta sér skólabygginguna til partýhalds. Annars gæti ég verið í vondum málum. Tökum dæmi um samtal milli mín og skólamanns:
Hann: Hva! Drasl út um allt og búið að brjóta rúður og stela fullt af dóti!
Ég: Uuuuu, það voru einhverjir eldri borgarar hér um helgina........
Hann: OG HRINGDIRU EKKI Á LÖGGUNA EÐA NEITT! Það er alræmt gamalmennaglæpagengi sem hefur gengið hér sveit úr sveit og rústað fullt af stofnunum og opinberum byggingum. Svo þykjast þau öll vera með alsæmer þannig að það er aldrei hægt að kæra þau fyrir neitt!
Ég vona innilega að þetta sé ekki raunin, en það er margt grunsamlegt við þetta partý. Einhverra hluta vegna hafa þau allar dyrnar læstar (og það er hvorki hægt að komast inn né út án þess að hafa lykil) sem bendir óneitanlega til þess að þau hafi komist inn um opinn glugga einhvers staðar. Og svo eru þau ótrúlega mörg og alls staðar í byggingunni.
Til að komast hjá vandræðum ákvað ég að yfirgefa skólasvæðið í dag og halda til niðrí bæ þar til fleiri nemendur eru mættir á svæðið. Og, já, ég er búin að taka til í Húsi E (það var sko EKKI eldriborgarapartý þar!) og skreyta fyrir heimkomu sambýlinga.
Í miðbænum komst ég að því að barinn þar sem nemendur hanga gjarnan á kvöldin er eins konar Kaffi Austurstræti á daginn. Spes. Slatti af mis-sjúskulegu fólki að drekka öl.
Annars er þetta helst í fréttum:
Er búin að panta flug heim í jólafrí. Millilendi á höfuðborgarsvæðinu og mun eyða þar allt að einum sólarhring sitt hvoru megin við hátíðirnar. Annars vegar 17.-18. desember og hins vegar 2.-3. janúar. 18. des-2. jan. mun ég að sjálfsögðu halda til á heimili foreldra minna í Egilsstaðaborg. Ef einhver er tilbúinn til að leyfa mér að gista í húsakynnum sínum þessar nætur sem ég verð í höfuðborginni væri það vel þegið. Eins væri frábært ef einhver vill sækja mig til Keflavíkur og/eða skutla mér þangað eftir áramótin. Þið hafið 2 mánuði til að hugsa málið.
Ákvað semsagt að fara að dæmi Sóleyjar og auglýsa viðburði með góðum fyrirvara. Hún hefur nú þegar óskað eftir nærveru minni á útskriftartónleikum sínum sem eru 12. apríl næstkomandi. Um að gera að byrja að plögga tímanlega!
<< Home