Friday, December 02, 2005

Tónlist nútímans

Var að koma af tónleikum. Euphoniumkall og píanókona frá Tromsö spiluðu nokkur létt lög og eitt nútímatónverk. Þetta voru samt allt 20. aldar verk, en í þessari færslu skilgreinist nútímatónverk; “tónlist” sem hefur mjög lítinn eða engan snefil af laglínu, heldur aðallega tilraunir með hljóð.

Spurningarnar eru þessar:
Hvað vakir fyrir fólki sem semur slíka “tónlist” (ég kýs reyndar að kalla þetta hljóðlist)? Er það bara að reyna að gera líf okkar sem á hlíða aðeins leiðinlegra en ella? Af hverju má ekki öll tónlist sem flutt er á tónleikum vera skemmtileg (=hafa laglínu af einhverju tagi)? Og af hverju getur fólk ekki bara gert tilraunir með hljóð heima hjá sér og kynnt þau fyrir áhugasömum kollegum á þar til gerðum ráðstefnum (bara hugmynd)?

Ef einhver hefur gríðarlegan áhuga á að vita hvernig hljóð kemur ef hann klappar á munnstykki eða hljóðfæri án munnstykkis. Eða hvernig hljóð kemur þegar euphonium spilar á álpappír, þá held ég að sá hinn sami geti alveg prófað sjálfur til að heyra útkomuna. Líkurnar á að hinn almenni tónleikagestur hafi velt þessum hlutum fyrir sér eru hverfandi. Og líkurnar á að þessi sami tónleikagestur hafi áhuga á því að vita það eru jafnvel ennþá minni.

Sambærilegt dæmi annarra listgreina væri ef kvikmundagerðarmanni dytti í hug að klippa sama 15 sekúndna langa atriðið á 164 mismunandi vegu. Hefði einhver gaman af því að horfa á slíka mynd? Jú, kannski örfáir. En í flestum tilfellum: NEI.

Eða ef rithöfundur skrifaði bók þar sem sama setningin (sem hafði enga merkingu til að byrja með) er orðuð á óteljandi marga vegu.

Ég minnist þess að eitt sinn í blásarakennaradeildinni í Tónó fundum við út að klarinettumunnstykki passaði á garðslöngu og þegar blásið var í munnstykkið kom mjög djúpur tónn (varla greinanlegur). Okkur fannst þetta mjög merkilegt. EN, við gerðum okkur líka grein fyrir því að það væru MJÖG fáir utan þessarar skólastofu sem hefðu áhuga á þessari uppgötvun.

Ef tónskáld nútímans gerðu sér grein fyrir þessari staðreynd held ég að tónlist heimsins væri áheyrilegri en raun ber vitni. Fólk hefur nefnilega ekki áhuga á að hlusta á þetta rusl.

Niðurstaða: Tónlist/hljóðlist sem enginn hefur gagn eða gaman af er tilgangslaus.

Takk fyrir mig


Eftirmáli: Með þessari færslu hef ég að öllum líkindum fyrirgert rétti mínum til að stunda tónsmíðanám á Íslandi. En það verður bara að hafa það.