Thursday, November 24, 2005

Einhverntímann er allt fyrst

Eða öllu heldur, þessa dagana er margt fyrst. Það er búið að vera viðbjóðslega mikið að gera síðustu dagana og þar af leiðandi ákvað undirrituð að taka til ýmissa misskemmtilegra aðgerða til að laga ástandið. Geðvonska í mínu heilahveli var nefnilega farin að nálgast hættumörk og það var bara tímaspursmál hvenær íbúar Húss E og aðrir nálægir hefðu fengið að kenna rækilega á þessari niðurbældu skapvonsku.

Til eftirtalinna aðgerða hefur verið gripið:

- Búin að hætta í einum kúrsi. Held reyndar að ég hafi gert það einu sinni áður um ævina.
- Búin að segja upp vinnunni, bæði munnlega og skriflega. Hef aldrei áður sagt upp vinnu án þess að ástæðan sé flutningur um fleiri hundruð kílómetra. Og hvað þá á útlensku.
- Er á námskeiði í að segja nei. Aukakúrs í tengslum við tónsmíðanámið sem felst í því að segja nei við öllu. Gengur ágætlega. Samt búin að taka að mér að spila í stórsveitinni aftur síðan ég byrjaði í þessum kúrsi. En búin að segja nei alveg ótrúlega oft síðustu 2 dagana.

Var þreytt í dag. Ákvað að sofa milli 5 og 7. Það gekk mjög vel. Svo vel að þegar ég vaknaði við vekjaraklukkuna klukkan 7 (19:00) hafði ég ekki hugmynd um hvort það var morgun eða kvöld, hvaða dagur var eða ár eða nokkrar aðrar tímasetningar. Var þó nokk með það á hreinu hver og hvar ég var. Það liðu örugglega 5-10 mínútur áður en ég fékk botn í tímamálin. Mjög sérkennileg lífsreynsla.

Er aðallega búin að vera að undirbúa skólaumsóknir síðustu dagana (svona þegar ég er ekki í tímum, sem er næstum alltaf). Það er gríðarlegt stuð. En alveg fáránlega mikið sem maður þarf að gera í umsóknarferlinu í sumum skólum. Þar má nefna margra klukkutíma tónfræðapróf (og þar erum við að tala um alveg 10-12 tíma) auk alls sem þarf að spila á bæði aðalhljóðfæri og píanó. Og svona líka fáránlega erfið lög og alla mögulega tónstiga í mörgum áttundum með báðum höndum á píanó. Maður hlýtur eiginlega að spyrja sig, hvað á maður eiginlega að læra þegar maður er kominn inn í skólann ef maður kann allt þegar maður sækir um?