Saturday, November 19, 2005

Hámark nördismans

er án efa að spila í lúðrasveitarkeppni milli nokkurra lúðrasveita í litlum bæjum í Noregi. Keppnin var afmörkuð við mjög takmarkað svæði í austurhluta Noregs. Í keppninni tóku þátt 13 lúðrasveitir (meðalaldur keppenda var í kringum 57 ár) og nokkur brassbönd (sem eru lúðrasveitir án tréblásturshljóðfæra). Skólinn minn sendi "lið" í báðar "deildir" keppninnar. Brassbandið vann en lúðrasveitin lenti bara í 3. sæti, sem voru gífurleg vonbrigði (lúðrasveitarkallinn var alveg miður sín) þar sem lúðrasveitin héðan hefur unnið þessa tilteknu keppni síðustu 4 árin. Ástæða "tapsins" er sennilega sú að meðlimir hljómsveitarinnar voru ekki allir að spila jafn hratt í nokkra takta í einu verkinu. Sumir voru komnir aðeins á undan (hafa sennilega misskilið keppnina aðeins og haldið að maður ætti að reyna að vera fyrstur að klára lagið).
Ein básúnustelpan í brassbandinu fékk sólistaverðlaun fyrir sitt framlag. Hún er kúl. Ætlar að sækja um í allavega einum tónlistarháskóla en er eiginlega búin að ákveða að læra eitthvað allt annað (sem ég man ekki hvað var akkúrat þessa stundina) þannig að hún kemur sennilega til með að afþakka boð um skólavist ef hún kemst inn. Í gær spurði hún mig einmitt hvort ég væri til í að semja lag fyrir brasskvintett. Og það ætla ég að gera um leið og ég er búin með strengjakvartettinn.

Hápunktur dagsins var tvímælalaust að fá að sitja fremst á efri hæðinni í tveggja hæða rútu. Það var sko ekkert smá gaman.