Saturday, November 12, 2005

Ný hljómsveit

Í morgun var stofnuð ný hljómsveit hér í skólanum. Norska klósettsinfóníuhljómsveitin. Nú þegar hefur verið ákveðið að flytja fiðludúett eftir Bach, útsett fyrir tvö klósett í e-moll. Einnig er meiningin að flytja Toccötu og fúgu eftir sama tónskáld (upphaflega samið fyrir orgel) og klarinettukonsert Mozarts. Ekki hefur endanlega verið ákveðið hvaða stöðu hver spilar, en allar stöður í sveitinni eru afar eftirsóknarverðar. S.s. 1. niðursturtari. Markmið sveitarinnar er að fá að koma fram á nútímatónlistarhátíð í Osló á næsta ári (Ultima festival). Meðlimir sveitarinnar telja það mjög mikilvægt að æfa ekki of mikið.

Eftir hádegið var svo tónlistarsögunámskeið þar sem klassíska tímabilið var til umfjöllunar. Meðal hlustunarefnis var trompetkonsert Haydns, spilaður á bílhorn. Ansi skemmtileg útfærsla á verkinu myndi ég segja.

Annars var merkisviðburður dagsins án efa tónleikar Lúðrasveitar Vestmannaeyja sem haldnir voru í dag. Þar hefði ég gjarnan viljað vera, en var óvart stödd í allt öðru útlandi. Bið ég því kærlega að heilsa eyjaskeggjum og óska hlutaðeigandi góðrar skemmtunar í kveld. Ég verð bara með næst. Hef reyndar verið ótrúlega dugleg að heimsækja eyjuna fögru að undanförnu. Búin að fara þrisvar á undanförnum 8 mánuðum. Geri aðrir betur.