Thursday, November 17, 2005

Hollráð um megrun

Það er búið að vera ansi líflegt á svæðinu síðustu daga. Nema á þriðjudaginn. Þá var meirihluti nemenda skólans að kynna sér starfsemi tónlistarháskóla nokkurs í Osló. Þar fengu hugsanlegir tilvonandi umsækjendur að vita allt mögulegt um starfsemi skólans og einnig var boðið upp á svokölluð “masterklöss” fyrir þá sem vildu taka þátt í slíku. Ég spilaði fyrir saxófónkennslukonu sem var mjög flink í að kenna (agalega mikil gribba samt) og svo hitti ég danskan tónsmíðakennara sem hafði líka ýmislegt áhugavert til málanna að leggja (og leit út eins og jólasveinninn). Hugsa að ég sæki um þessi nám í skólanum fyrir næsta ár. Á þessum kynningardegi voru allir hvattir til að sækja um, en um leið var þess getið að eiginlega enginn væri tekinn inn í skólann. Spes.

Í gær voru þrennir tónleikar hér í skólanum. 2 skólar sóttu okku heim og buðu upp á afþreyingu í formi tónlistar og þjóðdansa, auk hinna vikulegu nemendatónleika. Það var lítið annað gert þann daginn en setið á tónleikum, sem var alveg ágætt.

Í dag fór ég í saxófóntíma og spilaði ekkert. Held að slíkt hafi aldrei gerst áður. Var bara eitthvað að spjalla um mikilvæga hluti á þessu stigi málsins (kom sér reyndar ágætlega þar sem tími til æfinga hefur verið af skornum skammti síðustu dagana).

Í næstu viku á Hús E að sjá um morgunskemmtan. Það þýðir að við eigum að koma með skemmtiefni í 5-15 mínútur 2 morgna í vikunni. Annan þessara morgna ætlum við að vera með leikrit sem gerist neðansjávar. Ég á að leika krossfisk og hákarl. Hinn morguninn er hugmyndin að kynna nemendum nokkrar mikilvægar staðreyndir um lifnaðarhætti Íslendinga (og jafnvel smá um Færeyjar). Segi betur frá því síðar.

Er annars farin að taka upp á því að borða alveg óheyrilega mikið. Fékk þessa spurningu frá einni stelpu í dag: “Af hverju ert þú ekki feit? Þú borðar alveg fáránlega mikið og stundar ekki líkamsrækt af neinu tagi.” Mín kenning er sú að líkamsrækt sé hreinlega ekki eins holl og menn vilja ætla. Hins vegar er afar megrandi að sofa sem mest. Maður borðar ekki á meðan maður sefur. Heilráð til megrunarsinna er því: Hvernig væri nú bara að leggja sig aðeins (eða sofa lengur á morgnana) í staðin fyrir þessa endalausu líkamsrækt. Jújú, margir vilja vera í góðu líkamlegu formi. En hvað hefur það upp á sig? Fyrir mína parta vil ég segja eftirfarandi: Ég vil frekar deyja úr kransæðastíflu á miðjum aldri en enda snarrugluð á stofnun og lifa lengur en góðu hófi gegnir, og án alls gagns fyrir aðrar lifandi manneskjur (nema þá kannske til að skapa atvinnu).
Þetta var speki dagsins.