Saturday, October 20, 2007

Ýmislegt smávegis

Búið að vera voða mikið að gera síðan ég kom aftur til Útlandsins. Það var 15 klukkutíma námskeið í indverskum rytmum í vikunni. Semsagt 3 klukkutímar á dag, eftir venjulegan skóladag. Dáldið mikið á mann lagt, en þetta var ansi gaman. Lærði fullt af nýjum (kúl) orðum. Eins og; Tisra, Misra, Chatusra, Khanda, Jahti, Gati og miiiklu fleiri. Svona indverskt hryn-dót byggist voða mikið á –ólum inní –ólum inní –ólum (lærðum bara uppí 3 lög af –ólum, en mér fannst það nú meira en nóg). Hægt að nota marga tugi þúsunda mismunandi samsetninga. En þetta er nú eiginlega með öllu óskiljanlegt nema maður hafi verið þarna...

Er af einhverjum ástæðum (leti) komin smá á eftir í allavega einu fagi í skólanum. Dagurinn í dag fer því í að klambra saman hálfri invensjón í Bach stíl og byrja á fúgu. Ætti ekki að vera mikið mál þar sem ég er með nákvæmar leiðbeiningar, en er samt mál. Maður les nefnilega leiðbeiningarnar og hugsar: “Já, þetta er ekkert mál ..” svo um leið og maður byrjar að skrifa nótur, þá gleymir maður leiðbeiningunum. Vesen. Og svo eru fleiri skólaverkefni sem ég þyrfti að byrja á fyrir þriðjudaginn. Get ekki gert neitt á morgun, því þá eru lúðrasveitartónleikar og löng æfing á undan. Þetta eru eiginlega æfingabúðir + tónleikar þjappað saman á einn dag.

Er komin með smá kvef. Vona að það verði ekki langlíft (þó sjálflýsandi grænt hor sé nú ansi fallegt). Ætla að halda mig innan dyra í dag til öryggis. Má alls ekki vera að því að vera veik þessa dagana.

Vatnið er enn ekki drykkjarhæft. Las einhversstaðar að það þyrfti bara einn kúk til að menga allt drykkjarvatn borgarinnar. Og þá er spurningin: Hver kúkaði í vatnið?

Hér koma nokkrir möguleikar:
1. Flöskuvatnsframleiðandi
2. Verslunareigandi sem selur aðallega vatn á flöskum
3. Fullur kall að reyna að vera fyndinn
4. Búfénaður sem heldur til í nágrenni vatnsbóls borgarinnar.
5. Offitu- eða átröskunarsjúklingur sem sá þarna tilvalda megrunarleið.
6. Hryðjuverkamaður í leyt að nýjum aðferðum til hryðjuverka.

Fleiri hugmyndir?