Thursday, October 18, 2007

Vatnið

Hér í Óslóarborg er skyndilega orðið ódrykkjar- og tannburstunarhæft sökum pöddu. Þetta þýðir að sjóða þarf allt vatn í minnst 3 mínútur (helst 4-5). Þar með er hraðsuðuketillinn orðinn vanhæfur. Hann sýður nefnilega vatnið bara í smástund. Á mínu heimili hefur verið tekið til þess ráðs að sjóða slatta af vatni (í potti) að kveldi dags, og geyma það á viðeigandi stöðum (í ísskápnum til drykkjar/tannburstunar og í hraðsuðukatlinum til endursuðu í kaffi, te og annað tilfallandi). Sjáum svo til hvernig þetta fyrirkomulag virkar. Hingað til (í þennan 1 og hálfa sólarhring) hefur það virkað ágætlega Enginn veit hvursu lengi þetta ástand á eftir að vara. Hugsanlega eittthvað fram á næsta ár. Spennandi.

Vatnsbirgðir í verslunum borgarinnar eru af skornum skammti. En þó hef ég hvergi séð vatnslausa búð ennþá. Vatn án bragðs og kolsýru er að vísu ófinnanlegt. Persónulega er mér sléttsama hvort ég drekk vatn með kolsýru eða bragði eða bara eitthvað allt annað. Hið forna slagorð “Spörum vatnið, drekkum bjór” varð allt í einu ekki alvitlaust. Það er nóg af bjór í búðunum.

Svo er auðvitað möguleiki að drekka pödduvatnið úr krananum. Það á víst að hreinsa mann all-rækilega að innan. Gæti komið sér vel í megrunarkeppninni. Já, þið lúð(r)afólk sem lesið þessa síðu; Megrunarkeppni LR er formlega hafin. Öllum yfir tvítugu er velkomið að taka þátt (nema Rut, hún myndi hverfa).