Wednesday, October 17, 2007

Snilldarferð!

Snilld 1: Ferðalagið út gekk mjög vel. Fékk sæti við neyðarútgang þannig að það var nóg af plássi. Og ekki mikil seinkun á fluginu.

Snilld 2: Náði að hjálpa aðeins til við undirbúning ferðalagsins, þó ég kæmi ekki til landsins fyrr en á miðvikudagskveldi og ferðin hæfist á föstudagsmorgni. (Ferðalagið var á landsmót skólalúðrasveita sem haldið var á Höfn í Hornafirði í þetta skiptið).

Snilld 3: Veðrið. Hafði kynnt mér veðurspár áður en haldið var af stað frá útlandinu, og þær hljóðuðu allar upp á rok og rigningu. Jafnt á höfuðborgarsvæðinu sem á suð-austur horninu. Þessar spár stóðust ekki. Það var sól og logn nánast allan tímann, hvar sem ég var.

Snilld 4: Skipulagning á mótinu. Ekkert klikkaði. Allt gekk ótrúlega vel. Það er ekki á hvers manns færi að skipuleggja 500-600 krakka mót, en Hornfirðingar kunna þetta greinilega.

Snilld 5: Krakkarnir voru voða þægir allan tímann. Sérstaklega saxófón- og hornkrakkarnir í Rauðu sveitinni, sem ég var með á grúppuæfingu. Heyrðist varla í þeim (nema þegar þau áttu að vera að spila auðvitað). Krökkunum var skipt niður í fjórar rúmlega 100 manna lúðrasveitir (Gula, Rauða, Græna og Bláa) og einn slagverkshóp. (Rauða var klárlega best).

Snilld 6: Fékk að spila á túbuna í Rauðu sveitinni (hefur auðvitað ekkert að gera með það að mér fannst hún best).

Snilld 7: Skemmtilegar kvöldstundir í bjálkakofabar á Höfn. Góður staður, skemmtilegt fólk. Maturinn í bjálkakofanum var heldur ekki af verra taginu.

Snilld 8: Einkabílstjórinn sem ég hafði til afnota á mótsstað. Frábær félagsskapur. (Takk fyrir mig Anna Lilja).

Snilld 9: Ferðalagið aftur til Útlandsins. Fékk einhverra hluta vegna sæti á 1. farrými. Það gerist reyndar stundum þegar það er full vél og þarf að færa “almenninginn” lengra frameftir vélinni. En í þetta skiptið fékk ég líka alla þá þjónustu sem í boði er fyrir “fyrirmennin”. Þetta þýddi ótakmarkað magn af öli og víni, þriggja rétta máltið og kaffi og koníak á eftir. Þvílík snilld! Tókst örugglega að borða og drekka uppí nánast allt fargjaldið sem ég borgaði fyrir þetta flug. Mér er hins vegar hulin ráðgáta hvers vegna ég lenti í þessu sæti. En allavega. Takk fyrir mig SAS.

Nú er ég komin aftur til Útlandsins og þar er allt í einu bannað að drekka kranavatnið. Meira um það síðar (á morgun væntanlega).