Friday, November 23, 2007

Djúpur

Fór í gær á fyrirlestur hjá Þjóðverja sem semur tónlist fyrir heyrnarlausa. Merkileg pæling, og þar sem viðkomandi aðili á heyrnarlausa foreldra hefur hann ansi góða þekkingu á menningu heyrnarlausra. Þjóðverji þessi talaði reyndar enga ensku, þannig að fyrirlesturinn fór fram á þýsku. Allt í lagi með það. Þýska og skandinavísku tungumálin eru mjög svipuð, og flestir Þjóðverjar tala skýrt og skiljanlega (samt pínu skrítið þegar fullorðið fólk, sem ekki er komið á miðjan aldur, talar ekki ensku). Daninn sem hefur umsjón með fyrirlesarakúrsinum ákvað samt að það væri best að hann sjálfur túlkaði. Yfir á dönsku. Fyrir Norðmenn (og 1 Íslending). Það var ekki til að einfalda málin. Fyrirlesturinn varð ansi samhengislaus vegna stoppa og þýðingar yfir á óskiljanlegt hrognamál.
Skilaboð til Dana: Það skilur enginn hvað þið eruð að reyna að segja!

Fór með fyrsta uppkast af lúðrasveitarlaginu í tónsmíðatíma í dag. Kennaranum fannst það æði. Hann er nú kannski að verða full-jákvæður fyrir minn smekk. Mætti alveg vera neikvæðari og koma með fleiri athugasemdir. Var flinkari í því í fyrra. Hann segir nú samt alveg eitthvað. Mér finnst það bara ekki nóg.
En ég er allavega langt komin með stykkið. Þarf bara að lengja það aðeins, og kennarinn gat sagt mér hvar honum fyndist að lengingarnar ættu að koma. Gott mál. Hann velti reyndar soldið fyrir sér titlinum á verkinu. “Djúpur”. Ég útskýrði fyrir honum merkingu orðsins, og hann spurði hvort ég væri að vísa í eitthvað sem væri djúpt, eða djúpt í sálinni.... Ég horfði á hann eins og hann væri eitthvað ruglaður og svaraði svo: “Nei, Djúpur er sko nammi....”
Maður er nú ekkert að drepast úr háfleygni.

Þar sem það gengur svona ljómandi vel með allt mögulegt, ákvað ég að nota daginn í að tónsmíða ekkert. Tók til á heimilinu. Ekki veitti af. Og pakkaði inn afmælisgjöfum fyrir morgundaginn. Þá ætlar yngsti bekkjarfélaginn að halda uppá upphaf fullorðinsáranna. Litli drengurinn er orðinn tvítugur.
Ætlaði alltaf að skrifa smá pistil um bekkjarfélaga mína fjóra, þar sem ég eyði töluverðum tíma með þessum einstaklingum. En það fær að bíða enn um sinn.