Thursday, November 08, 2007

Varúð, pirringur

Fór á sinfóníutónleika í kvöld. Þriðja fimmtudagskvöldið í röð. Búin að vera dugleg í tónleikamætingum. Á þessum tónleikaferðum mínum hefur tvennt vakið furðu mína:

Furða 1: Í lok tónleika er engin feit kona sem syngur, eins og segir í máltækinu, en það er hins vegar feitur kall sem vaggar fram á sviðið með blómvönd handa stjórnanda (og einleikara, þegar það er svoleiðis). Ansi skrítið að láta feitakallinn vera blómastúlku þegar nóg er af ungum og myndarlegum stúlkum sem vinna á svæðinu. Þetta er bara ekki starf fyrir feitan kall (fordómar? Já).

Furða 2: Eftir tónleika klappa allir áheyrendur, eins og lög gera ráð fyrir. En hvað gera strengjaleikarar? Jú, þeir veifa boganum sínum eitthvað út í loftið. Eða flestir allavega. Sumir klappa bara venjulega (sem segir okkur það að þeir geta alveg klappað þó þeir séu með hljóðfæri og boga í höndunum). Ég bara skil ekki þetta veif. Það lítur fáránlega út auk þess sem það er örugglega stórhættulegt. Fólk er oft ekki nema hársbreidd frá að berja næsta mann fyrir framan í hausinn.

Í dag fór ég líka á enn einn misáhugaverða fyrirlesturinn um nútímatónlist. Það er löngu hætt að vera fréttnæmt. Það koma gestafyrirlesarar nánast vikulega. Og alltaf eru þeir að reyna að sannfæra okkur um hvað þetta suð sem þeir kalla tónlist (og að mínu mati á ekkert skilt við tónlist) er ótrúlega mikilvægt fyrir alla þróun innan tónlistar. Flestir þessara fyrirlesara eru reyndar í eldri kantinum, þannig að ég vona bara að þeirra hugmyndir um tónlist deyji út með þeim, og eftir 50-100 ár haldi fólk að Stokkhásen sé eitthvað oná brauð. Það er engum manni hollt að heyra svoleiðis “tónlist”.

Á lúðrasveitaræfingu á þriðjudaginn prófuðum við að spila verk eftir náunga sem sagður var nemandi í tónsmíðadeildinni í skólanum mínum. Mér fannst það skrítið þar sem ég kannaðist ekkert við nafnið. Fór svo að ráma í nafnið. Gaur sem byrjaði í þessu námi fyrir löngu (2002) og er enn ekki búinn að klára, af einhverjum ástæðum. Eftir að verkinu (sem hann ætlaði að nota sem útskriftarverk) hafði verið rennt einu sinni voru allir með það á hreinu af hverju þessi maður væri ekki búinn með námið sitt. Þetta var lélegra en flest þau verk sem umsækjendur í deildina senda inn. Sýndi bæði fram á vanhæfni til tónlistarsköpunar og vankunnáttu í hljóðfærafræði (tókst t.d. að skrifa bæði of hátt og of lágt fyrir sax-grúppuna, þó að megnið af “nótunum” hefðu verið hvísl og takkahljóð).
Hvernig í ósköpunum komst þessi maður inn í skólann og hver er eiginlega að kenna honum? Ég vil ekki hafa þann kennara. Held ég spyrji kennarann minn að því í næsta tíma. Á næsta ári er nefnilega meiningin að minn árgangur velji sér nýja kennara, og þá er alveg eins gott að nota útilokunaraðferðina.

Þetta er nú orðið ótrúlega langt og pirrað blogg. Ætli ég reyni ekki að skrifa eitthvað skemmtilegt næst.