Monday, October 29, 2007

Löggur og prestar

Í dag fékk ég að vita hina raunverulegu skýringu á þessari gífurlegu öryggisgæslu hér í skólanum. Hér kemur sagan af því.

Það vill þannig til að tónlistarháskólinn er staðsettur á milli tveggja annarra skóla. Lögguskólans og prestaskóla nokkurs. Hér áður fyrr var mötuneyti tónslistarskólans öllum opið og vöndu nemendur hinna skólanna tveggja, sem flestir (ef ekki allir) voru af karlkyninu, gjarnan komur sínar þangað. Eftir einhvern tíma þótti mönnum nokkuð ljóst að aðkomunemendur litu á tónskólann sem eins konar “makaleitunarstöð”. Þeir dvöldu semsagt löngum stundum í mötuneytinu í leit að álitlegum kvenmönnum. Þetta þótti stjórnendum hins háttvirta tónlistarskóla alls ekki nógu gott, og ákváðu að meina löggu- og prestanemum aðgang að skólanum. Það gekk í sjálfu sér vel að henda löggugenginu út. Þeir voru auðþekkjanlegir. Kúl gaurar í leðurjökkum. Prestana var meira mál að þekkja. Þeir voru nefnilega alveg jafn lúðalegir og tónlistarnemarnir. Því var tekið á það ráð að banna öllum aðgang að húsnæði skólans, nema löggiltum kennurum og nemendum umrædds skóla, sem geta sýnt fram á það með þar til gerðum skírteinum.

Það hlaut að vera einhver raunhæf skýring á öryggishliðunum og verðinum sem situr alltaf við innganginn...