Sunday, November 04, 2007

Ferkant

Saxófónkvartettpartýið var snilld. Var ekki að skreiðast heim til mín fyrr en klukkan var farin að nálgast sex. Það er seint. Eða snemmt. Fer eftir því hvernig á það er litið.

Partýið var haldið á heimili baritónsaxófón-gaursins, eftir æfingu sem fór fram annarsstaðar. Áður en haldið var heim til partýhaldarans vissi ég að hann byggi með maka, og vinafólk þeirra skötuhjúa býr líka hjá þeim tímabundið meðan verið að gera upp íbúðina þeirra. Að sjálfsögðu hafði ég séð hina íbúana fyrir mér sambýliskonu og par. Karl og konu. En ekki hvað? Raunin var sú að allir íbúarnir voru karlar. Kom mér mest á óvart hvað maður er hrikalega ferkantaður í hugsun.

Í partýinu voru við fimm sem spilum í kvartettinum (já, það geta alveg verið fimm í kvartett) og einn klarinnettuleikari fékk líka að vera með. Hann er sko skápasaxófónleikari. Hann er reyndar líka samkynhneigður, en sér enga ástæðu til að vera í felum með þá staðreynd. Í Útlandinu er hljóðfærahneigð greinilega meira feimnismál en kynhneigð.

Dagurinn í dag virðist ætla að verða með slappara móti. Aðeins of mikið koníak með kaffinu sennilega.