Wednesday, November 28, 2007

Píanó-jóla-dæmi

Hefðbundinni kennslu fyrir jólafríið lauk í síðustu viku. Gærdagurinn var samt með lengri skóladögum þessa önnina. Óhefðbundin kennsla tekur greinilega lengri tíma.

Fylgdist með æfingu hjá útvarpshljómsveitinni, þar sem tekin voru fyrir verk nokkurra samnemenda minna. Gaman að því.

Það sem eftir lifði dags fór svo í ýmsan undirbúning fyrir píanó-jóla-dæmið um kvöldið.
Píanó-jóla-dæmið voru litlir tónleikar þar sem við sem erum með píanó sem aukahljóðfæri spiluðum fyrir hvort annað. Ég spilaði reyndar á lúður og ein stelpa á selló.

Komst að því að það er eiginlega bara skrítið fólk með píanó sem aukahljóðfæri. Semsagt orgelleikarar. Þeir orgelnemendur sem eru á öðru ári hafa oft vakið athygli mína á göngum skólans. Eflaust eitt skrítnasta gengi sem ég hef séð. Gengi þetta samanstendur af einum kalli (sem gengur oftar en ekki um berfættur), rússneskri gellu (með fullkomnunaráráttu – komst ég að í gær) og pólskri nunnu. Spes lið. En þar sem það var svona mikið af skrítnu fólki á píanó-jóla-dæminu, var það eiginlega töffarinn sem stakk mest í stúf. Drengur (ættaður frá Bergen af málfarinu að dæma) rétt innan við tvítugt, með ansi marga töffarastæla á hreinu. Og hvað gerir hann svo í þessum skóla? Jú, hann er víst líka í orgeldeildinni. Kom mér ekki lítið á óvart, og þá sérstaklega af þeim sökum að inntökuskilyrði í þá deild eru þess eðlis að flestir þurfa a.m.k. hálfa ævina til að undirbúa sig. Hann hefur greinilega notað sína stuttu ævi í eitthvað annað en æfa töffarastælana, þó hann beri það ekki með sér...

Nú er skólinn eiginlega alveg búinn. Þetta er eftir:
- Tónsmíðatími hjá hljómsveitarkallinum á mánudaginn. Þá ætla ég helst að vera búin með lúðralagið.
- Skiladagur fyir Bach-fúgu (sem ég er næstum búin með) á þriðjudaginn.
- Skriflegt próf í tónheyrn á miðvikudaginn.

Og hvernig undirbýr maður sig fyrir skriflegt próf í tónheyrn? Ef einhver lesandi býr yfir þeirri vitneskju má sá hinn sami gjarnan deila þeim fróðleik með mér.

Í staðinn eru hér upplýsingar um hvernig gott er að lengja tónverk:
Bæta við löööngu túbusólói. Klikkar aldrei.

Heimkoma eftir viku.