Wednesday, February 20, 2008

Frí eða ekki frí?

Núna er víst vetrarfrí í skólum Útlandsins. Það hefur af einhverjum ástæðum farið frekar mikið framhjá mér. En mér leiðist allavega ekki á meðan.

Næstu vikurnar mun flest snúast um lúðr. Keppnin eftir fáar vikur, og þangað til verða aukaæfingar og æfingatónleikar ansi stór hluti af daglegu lífi.

Það sem ég ætlaði hins vegar að gera í þessu fríi var að ná vinna upp verkefni í þeim fögum sem ég lenti eftirá í, vegna síðustu Íslandsfarar. Það gengur hægt. Vonast samt til að vera búin að ná mér nokkuð vel á strik á mánudaginn, þó dagarnir séu allir að fara í eitthvað annað.

Dagurinn í dag hvarf nánast í að laga nokkur smáatriði í einu lúðralagi. Þurfti að breyta öllum pörtum eitthvað smávegis, og það tók óhuggulega langan tíma. Smámunasemi mín í partagerð er farin að jaðra við geðsýki.
Þannig að ef þú er tónskáld og vantar starfskraft til að gera parta, þá er ég klárlega rétta manneskjan í starfið (já, mig vantar vinnu í sumar...)

Verkefnið "Að-fá-allt-sem-ég-vil-í-skólanum" gengur ágætlega. Er búin að fara í nemdendaviðtal (þar sem ég kvartaði yfir öllu mögulegu og ómögulegu), mæta á fund í Ráðinu og fá mér sæti í nefnd sem hefur það að markmiði að hefja skipulegt samstarf milli tónsmíðanema og hljóðfæraleikaranema. Það er einmitt eitthvað sem hefði átt að gerast um leið og skólinn var stofnaður. Finnst alger óþarfi að stofna einhverja nefnd um málið. Ég veit alveg hvernig á að gera þetta og finnst alveg óþarfi að ræða það neitt nánar (því auðvitað á ég að fá að ráða öllu sem ég vil, eins og sjá má í titli verkefnisins). En að öllu gamni slepptu, þá finnst mér svona fundir í nefndum og ráðum oft vera ansi mikil tímasóun. Alltof mikill tími í að tala um að gera hitt og þetta, í staðin fyrir að drífa bara í hlutunum.

Nóg að gera. Spurning um að skipuleggja sig aðeins betur.