Saturday, February 09, 2008

Stundum borgar sig að tuða

Það er eitt frábært við að vera fáránlega þreyttur í einn dag. Í marga daga á eftir er ekkert mál að vakna eldsnemma á morgnana, hoppa fram úr rúminu og segja: “Iss, maður hefur nú verið þreyttari en þetta” og hlæja stórkallalega. Þannig er vikan búin að vera. Og það er ekki slæmt skal ég segja ykkur.

Er ekkert eins mikið á eftir í skólanum og ég hélt ég myndi vera eftir fjarveruna, og það er heilmargt jákvætt í gangi.
Eins og glöggir lesendur muna kannski, fór ég á fund með tónsmíðadeildarráði skömmu áður en ég yfirgaf landið, og tuðaði talsvert. Meðan ég var fjarverandi komst það nokkurnvegin á hreint að tvennt af þessu þrenna sem ég tuðaði yfir fæ ég að gera án frekara tuðs. Á næsta ári fæ ég semsagt að læra á lúður og taka kúrs í norskri þjóðlagatónlist. Ennfremur var boðaður nýr fundur með kammermúsíkfólki. Sá fundur verður strax í næstu viku.
Það borgar sig greinilega að tuða hér á bæ. Tónsmíðadeildarráðsfólkið fær því stórt hrós!

Var á æfingu með tveimur drengjum sem ætla að spila verk eftir mig í tréblásarahóptíma (eins konar masterklass) á mánudaginn, og verður það að teljast talsverður sigur þegar hugsað er til þess hvað það er fáránlega erfitt að fá flutt verk eftir sig innan skólans.

Fór á tónleika með stórsveit Benna Hemm Hemm í vikunni. Tónleikarnir fóru fram á leynilegasta bar sem ég hef nokkru sinni fundið. Hélt að það myndu nú ekki margir mæta vegna staðsetningar á öldurhúsi þessu (inní skoti inní porti og engan vegin hægt að sjá eða heyra frá götunni að þarna væri eitthvað í gangi). En þar skjátlaðist mér sem betur fer. Kráin átti sér greinilega dágóðan fastakúnnahóp sem lét sig ekki vanta á þennan viðburð.
Vil þakka stórsveitar-drengjunum fyrir afar skemmtilega kvöldstund.