Monday, March 17, 2008

Að gefnu tilefni

Ég hef, hingað til, forðast að rita um pólitísk málefni hér á þessa bloggsíðu.

En nú get ég ekki lengur orða bundist. Ástæðan? Jú, að sjálfsögðu ört fallandi gengi íslensku krónunnar... og hér verður stiklað á stóru um margt sem við kemur því máli, beint og óbeint.

Ég hef aldrei tekið ákveðna afstöðu til Kárahnjúkavirkjunar og álvers við Reyðarfjörð. Mikið var rætt um umhverfissjónarmið í tengslum við þessar framkvæmdir, og er það að bera í bakkafullan lækinn að bæta einhverju við þá umræðu. Það sem mér fannst varhugaverðast þegar ráðist var í þessar framkvæmdir var þau áhrif sem þetta myndi óhjákvæmilega hafa á íslenskt efnahagslíf. Hefði viljað sjá íslensku krónunni skipt út fyrir evruna strax áður en framkvæmdir hófust. En það komst nú ekki einu sinni í umræðuna svo neinu næmi. Og sjá hvað gerist? Óvænt? Ég held nú síður.

Mótmælendur sem kenndir eru við að “bjarga Íslandi” eru þjóðflokkur sem mér hefur aldrei líkað við. Þekki fólkið ekki persónulega, hef einungis fylgst með fréttaflutningi og orðrómi austanlands um framkomu þeirra. Samkvæmt orðrómnum hafa flestir ógæfumenn í miðborg Reykjavíkur meiri sjálfsvirðingu en þessi hópur mótmælenda. Það sem þau afrekuðu var aðallega aukinn kostnaður ríkissins í löggæslu. Mín vegna hefði þetta lið alveg mátt detta niður úr krönum eða verða fyrir vörubílum, fyrst þau þurftu endilega að vera að flækjast fyrir. Hefði sparað í löggunni. Svo hefði náttúrulega aldrei átt að fangelsa lýðinn. Fjársektir hefðu verið viðeigandi. Ef fólk á ekki pening til að borga sínar sektir, þá á það að vinna. Veit t.d. um vinnustað á Reyðarfirði sem hefði eflaust getað séð þeim fyrir atvinnu....

Nú á að fara að byggja nýtt álver í Helguvík. Sá umræður um það í Kastljósi í síðustu viku. Þar komst fylgismaður álversins einhvernvegin þannig að orði að “kannski væri aukið fjárstreymi inn í landið einmitt það sem íslenskt hagkerfi þyrfti við núverandi aðstæður.”

ERTU HÁLFVITI?!

Nú er ég enginn fjármálasérfræðingur, en ég veit að verðbólga verður vegna þess að það eru til meiri peningar en dót til að kaupa fyrir peningana. Þetta er örugglega dáldið mikil einföldun á ástandinu, en þetta skilja allir. Þegar allir ætla kaupa dót fyrir peningana sína, og ljóst verður að það er ekki nógu mikið dót til, þá hækkar dótið sem eftir er í verði og peningarnir verða minna virði = gengið fellur. Og hvernig getur aukið fjárstreymi inn í landið verið gott við slíkar aðstæður?
Núna er ekki tíminn fyrir nýtt álver! Ef fólki vantar nauðsynlega vinnu akkúrat núna, þá er nóga vinnu að hafa á Íslandi, þó hún sé kannski ekki í næsta húsi. Það er alveg hægt að sækja vinnu í annað bæjarfélag tímabundið, eða flytjast búferlum þangað sem vinnan er.

Neysluvenjur Íslendinga eru þess eðlis að stórframkvæmdir eru ekki íslensku efnahagslífi til góða. Íslendingar eyða öllum sínum fjármunum strax, og helst aðeins meiru. Þetta er það heimskulegasta sem fólk getur gert við núverandi aðstæður. Núna er ekki tíminn til að kaupa nýjan bíl eða annað dýrt dót!
Þegar sambærilegar aðstæður komu upp í Noregi (olían fannst) tókst að koma allri þjóðinni í skilning um þessar aðstæður. Og hvað gerist? Jú, fólk tekur mark á þessu og sparar. Margir halda því fram að Norðmenn séu nískir. Það getur vel verið, en það er góð ástæða fyrir því. Og norska krónan er örugglega einn af öruggustu gjaldmiðlunum.

Þar sem Íslendingar vilja greinilega halda áfram stórframkvæmdum, og koma seint til með að breyta neysluhegðun sinni, þá mæli ég með að evran verði tekin upp sem fyrst. Áður en Ísland fer á hausinn, væri ágætis hugmynd.

Sjitt hvað allt væri miklu betra ef ég fengi að ráða öllu.