Síðan síðast:
- Endalaust margar lúðrasveitaræfingar, og auðvitað skóli eins og venjulega.
- Óslóarmeistarakeppni í lúðri. Við unnum. Jeij.
- Afskaplega vel heppnaðir tónsmíðanematónleikar. Passlega mörg, stutt og fjölbreytt verk. Ótrúlega margir mættir og fólk virtist ánægt með framtakið. Verður pottþétt endurtekið að ári, ef ekki fyrr.
- Mótmælavikan skilaði líka óvæntum árangri. Áttum að vera með “tónleika” í maí, þar sem verkefni í ákveðnum kúrsi skyldu flutt, af okkur sjálfum. Kúrs þessi gengur út á að skrifa punkta og strik á blað og spila á hljóðfæri sem við kunnum ekki á. Voða gaman eldsnemma á þriðjudagsmorgnum. En að framkvæma þetta fyrir framan fólk? Ég held nú ekki. Hljómar eins og lítil byrjendalúðrasveit, og er klárlega ekki áhugavert áheyrnar fyrir neinn. Eftir langar rökræður fékk ég það sem ég vildi. Þessum “tónleikum” hefur semsagt verið aflýst. Ákveðinn sigur þar líka.
Á morgun skal haldið á vit ævintýranna í Þrándheimi, og keppt í lúðri við allan Noreg. Efast nú um að við vinnum það, en planið er að falla allavega ekki niður um deild. Það er sko keppt í deildum eins og í fótbolta. Við keppum í úrvalsdeild.
Annars finnst mér ansi vafasamt að keppa í tónlistarflutningi. En svona er þetta hér í landi lúðrasveitanna. Í hugum flestra sem ég hef talað við um þennan viðburð, er aðalmálið þó partýið á laugardagskveldinu.
Eins gott að hafa forgangsatriðin á hreinu.
Viðbót:
Í þessari upptalningu um helstu atburði síðustu daga, gleymdi ég að minnast á að ég skilaði af mér mínu fyrsta verki fyrir sinfóníuhljómsveit í dag.
Stundum gleymast aðalatriðin.
<< Home