Wednesday, March 12, 2008

Bylting?

Dagurinn fór í hljóðversvinnu. Tók upp lag eftir mig sjálfa (þetta sem var flutt á tónsmíðadeildartónleikunum í liðinni viku). Gaman að eiga svona “alvöru” upptöku sem maður hefur gert alveg sjálfur. Á reyndar eftir að klippa og hljóðblanda, en það verður gert á morgun. Drengjunum tveim sem spiluðu þetta fyrir mig þótti ótrúlega gaman að taka þátt í verkefninu, og fá að spila á tónleikum OG í hljóðveri. Þessar elskur héldu svo langa þakkarræðu áður en þeir yfirgáfu hljóðverið um hvað þetta hefði verið skemmtilegt alltsaman. Gaman að því.

Á leiðinni út hitti ég hljóðversmanninn. Spjallaði aðeins við hann. Sagði honum að allt hefði gengið vel og tónlistarmennirnir hefðu verið svakalega ánægðir með framtakið. Þá tók samtalið óvænta stefnu.
Hljóðversmaður þessi situr í tónsmíðadeildarráðinu og hefur því fengið nasaþefinn af verkefninu sem ber vinnuheitið “að-fá-allt-sem-ég-vil-í-skólanum”. Verkefni þetta stuðlar aðallega að því að tónsmíðanemar fái að vinna með hljóðfæraleikurum innan skólans, og að það verði skyldufag í námsskrá tónsmíðadeildar. Hann tjáði mér að í raun væru nánast allir sammála mér í þessu verkefni mínu. Þetta stoppaði bara á einu. Hann vildi ekki segja hvað það var, en ég mátti giska. Ég giskaði rétt í fysta. Það er helv... danskurinn sem er á móti verkefninu mínu. Mig hafði svosum alveg grunað það, en nú hef ég fengið staðfestinguna. Frekar fúlt þar sem Daninn ræður öllu, og hljóðversmaðurinn er ekki fyrsti kennari innan deildarinnar sem ég hitti, sem er ósammála Herra Hæstráðanda.
Hljóðversmaðurinn benti á að nemendur væru þeir einu sem gætu gert byltingu... Hint? Þaldénú.

Held ég haldi samt áfram að reyna að fá það sem ég vil á friðsamlegan hátt aðeins lengur áður en ég fer að safna liði í byltingu.