Monday, March 31, 2008

Hegðunarreglur

Í dag byrjaði skólinn aftur, eftir páskafríið endalausa.

Þetta byrjaði nú rólega. Bara tveir og hálfur tími (sem byrjaði ekki fyrr en hálfþrjú). Og allur sá tími fór í að leggja okkur lífsreglurnar fyrir næsta mánudag. Þá fær minn bekkur nefnilega að vera viðstaddur æfingu hjá Alvöru Atvinnumanna sinfóníuhljómsveit, sem ætlar að æfa verk eftir okkur.

Svona á maður að haga sér þegar Alvöru Atvinnumanna sinfóníuhljómsveit æfir verkið manns:

-Sitja á fremsta bekk og vera tilbúinn til að svara spurningum stjórnandans, ef einhverjar eru.
-Svara spurningum, án málalenginga.
-Ekki tala beint við hljómsveitarmeðlimi. Öll samskipti eiga að fara í gegnum stjórnandann.
-Ekki tala nema á mann sé yrt.
-Ef maður fær að koma með athugasemdir að eigin vali, skal maður ekki koma með fleiri en þrjár. Helst bara eina.

Þetta eru mikilvægustu atriðin.

Í stuttu máli: Vera kurteis.

Finnst pínu fyndið að hafa fengið hegðunarreglur, en auðvitað bráðnauðsynlegt, þar sem ein svona æfing kostar nokkrar skrilljónir – og öll samskipti þurfa því að ganga ansi smurt svo það verði eitthvað úr æfingunni.

Lúðrasveitin mín hér ytra er líka að æfa verk eftir mig. Þar má ég tala við þá sem mér sýnist, og segja það sem mér sýnist, þegar mér sýnist.... get samt auðvitað ekkert verið að tala meðan ég er með lúður í munninum.

Og talandi um málæði (eða ritæði öllu heldur). Þetta er færsla númer þrjúhundruð.