Friday, April 04, 2008

Eftir páskafrí

Fyrstu viku eftir páskafrí að ljúka, og það er bara ansi gaman að vera kominn í skólann aftur eftir svo langt frí. Tíminn flýgur áfram, og strax komin helgi.
Og skyndilega er kominn apríl. Meiraðsegja 4. apríl. Þá á Siggalára afmæli. Til hamingju með daginn frú Sigríður.

Kennarar dagsins í dag reyndust fjarri góðu gamni. Sá fyrsti lét ekki sjá sig. Ástæða ókunn. Og sá síðari lá heima í flensu. Fúlt fyrir þá. En þar með bauðst hið fullkomna tækifæri til að undirbúa Byltinguna í samráði við nokkra samnemendur mín. Það gekk vonum framar. Við skrifuðum formlegt og vel ígrundað bréf til Allsherjarráðs tónsmíðadeildarinnar, og héldum skyndifund með yfirmanni kammertónlistar í skólanum. Hann var hinn jákvæðasti, sem var nú eitthvað annað en það sem við höfðum heyrt frá helv... Dananum. Enda kom upp úr kafinu að umræddum Dana hafði engan vegin tekist að útskýra mál sitt fyrir Kammertónlistarmanninum. Hafði hitt hann á hlaupum í stigaganginum og sagt eitthvað út í bláinn á sínu “vel skiljanlega” móðurmáli.
Já, maður verður hreinlega að taka málin í sínar hendur þegar yfirmaður deildarinnar reynist svo lítt hæfur til starfans.
Undirbúningur Byltingarinnar er því á lokastigi. Reikna með að honum ljúki um eða upp úr helgi.

Annars er mest lítið að frétta. Er að reyna að skipuleggja sumarið eitthvað. Það gengur mjög hægt, en það bendir margt til að hlutirnir skýrist betur í næstu viku.
Það eina sem ég er búin að plana eru tvær ferðir til Vestmannaeyja, sem leiðir óhjákvæmilega til viðkomu á Íslandi. Einhverntíma komst afmælisbarn dagsins svo að orði að ég væri “Eyjasjúk”. Held að það sé vægt til orða tekið, miðað við fyrirliggjandi sumarplön.