Góð æfing
Þá er ég búin að vera viðstödd æfingu hjá Alvöru Atvinnumanna sinfóníuhljómsveit sem æfði verk eftir mig. Það var nú ekki nálægt því að vera eins hræðilegt og var búið að undirbúa mann fyrir. Þetta var hin besta skemmtan. Flinkir hljóðfæraleikarar og stjórnandi sem kom með gagnlegar tillögur að lagfæringum. Frábært alveg hreint. Sumir bekkjarfélaga minna fengu reyndar harðorðar athugasemdir, en þær áttu nú oftar en ekki rétt á sér.
Það athygliverðasta var umræðurnar sem við áttum eftir æfingu, bekkurinn og tveir kennarar skólans (hinn margumræddi Dani og einn til). Hinir tveir hærra settu voru algerlega á þeirri skoðun að þeir sem “tóku sénsa” (og fengu þar með illt auga frá hljóðfæraleikurum) hefðu verið hetjur dagsins.
Línan á milli “að taka sénsa” og vita ekki hvað maður er að gera, er að mínu mati ósýnileg. Hér er verið að ræða um að finna upp hjólið enn einu sinni, og/eða vita ekki tónsvið hljóðfæra og aðra hljóðfæratæknilega hluti. Og hér erum við sennilega komin með hluta ástæðunnar fyrir því að mestöll nútímatónlist er eins og hún er. Hundleiðinleg. Oft getur verið sniðugt að gera “öðruvísi hluti” í tónlist, en þegar skrifað er fyrir strangt form, eins og sinfóníuhljómsveit, þykir mér mikilvægt að taka mið af menntun hljóðfæraleikaranna (sem er að öllu jöfnu venjuleg klassísk menntun) og nýta sér þá þekkingu og færni sem þeir búa yfir. Ef maður hefur ekki hugmynd um hvað felst í hljóðfæraleikaramenntun, ætti maður að gera eitthvað annað en tónsmíða. Finnst mér. En.... tónsmíðakennarar hér á bæ eru greinilega ekki sammála mér. Allavega ekki þessir tveir. Það er kannski ástæðan fyrir að þeir vinna við kennslu; enginn sem hefur áhuga á að spila neitt eftir þá...
Þegar ég verð stór ætla ég að skrifa doktorsritgerð í tónsmíðum. Ritsmíð sú skal bera heitið “Ástæðan fyrir því að nútímatónlist er svona ótrúlega hundleiðinleg.”
<< Home