Max = ekki kúl
Þá er skólinn loksins alveg byrjaður. Búin að fara í fyrsta tímann í öllu og líst bara nokkuð vel á þetta alltsaman, þrátt fyrir nett þunglyndiskast á mánudaginn þegar ég komst að því að helv... Daninn kennir helminginn af skyldufögunum. Það var búið að ljúga því að mér að hann yrði ekkert að kenna þetta skólaárið vegna rannsóknarverkefnisvinnu.
Það reyndist misskilningur.
Þar sem umræddur Dani kann ekki að skipuleggja neitt fengum við að vita í fyrsta tímanum að tímarnir í faginu yrðu helmingi fleiri en stundaskráin segði til um, og sá helmingur sem ekki var getið um í skránni snýst að öllu leyti um hið frábæra forrit MAX-MSP (nánar tiltekið: verkfæri djöfulsins). Fór í fyrsta tímann í því í dag. Virðist vera nákvæmilega það sama og ég lærði á ótrúlega löngu 5 daga námskeiði fyrir tveimur árum síðan. Það voru 5 lengstu dagar lífs míns. Kosturinn við MAX-tímana þetta árið er að Daninn kennir þá ekki. Gallinn við MAX er að þetta er í rauninni ekkert svo leiðinlegt til að byrja með. En ef maður passar sig ekki verður þetta ávanabindandi. Dáldið eins og Sudoku, nema MAX-fólk fær gjarnan þá grillu í höfuðið að tilgangur lífsins felist í MAX-MSP eingöngu.
Það er rangt.
Nenni nú eiginlega ekki að tjá mig um fjármáladæmið, en ég rak augun í það í einhverjum fjölmiðlinum að einhver teldi einu möguleikana á bættu ástandi að skipta íslensku krónunni út fyrir evru, eða styrkja krónuna (einhvernvegin... náði ekki hvernig).
Þriðji möguleikinn (og sennilega sá einfaldasti fyrst Íslendingar hafa enn ekki getað fundið farsæla lausn á sífallandi gengi krónunnar) væri að íslenska þjóðin flytti í heild sinni aftur "heim" til Noregs. Þar gæti hún byggt sína eigin borg (nóg pláss) og notið fjárhagslegrar aðstoðar til að byrja með (hér búa peningarnir) verandi flóttamenn. Hér er veðurfar líka mun hagstæðara og félagsleg þjónusta til fyrirmyndar (eftir því sem ég kemst næst).
Gott plan.
<< Home