Sunday, November 06, 2005

Helgin

var með órólegra móti. Hitti fullt af útlenskum foreldrum, öfum, ömmum og systkinum. Ein stelpan var svo góð að lána mér mömmu sína til bráðabirgða, þannig að ég átti líka eitt foreldr á fjölskyldudaginn. Það var semsagt stappfullt af fólki hér um helgina, og maraþontónleikar meira eða minna frá föstudagskvöldi fram á laugardagskvöld.

Eftir að flestar fjölskyldur höfðu haldið heim á leið ákvað meirihluti íbúa Húss E og ýmsir fleiri nemendur skólans að halda í miðbæinn og kíkja aðeins í glas. Það endaði á því að verða skuggalega líkt venjulegu íslensku unglingafylleríi. Held ég hafi aldrei séð jafn mörg magainnhöld koma út öfuga leið. Og merkilegt nokk, þá ákvað minn magi að vera algerlega til friðs. Aðrar stúlkur úr Húsi E fóru hins vegar frekar illa út úr því og skildu við áður etnar fæðutegundir á hinum ólíklegustu stöðum. Kvöldið endaði á furðulegan hátt á Shellstöð að þrífa leigubíl um fjögurleytið í morgun.

Sé fram á að næsta vika verði með venjulegra móti, sem er gott. Þá finn ég kannske tíma til að æfa mig á lúðrana og tónsmíða. En á morgun er það vinnan (andvarp). Er komin með vinnuleiða á háu stigi. Hugsa að ég fái mér vinnu á skrifstofu þegar ég verð stór. Helst við að umslaga allan daginn.