Tuesday, November 08, 2005

Skólar

Jæja. Þá er komið að því að fara að pæla í skólum Þ.e. hvaða skóla á að sækja um fyrir næsta árið. Eða maður getur farið hina leiðina. Sótt um í alla skóla sem manni mögulega dettur í hug að sækja um í og sjá svo til hvað kemur út úr því. Gott plan. Þá þarf ég ekki að pæla meira í því í bili.

Á næstu vikum koma gestir frá hinum ýmsustu útlenskum tónlistarháskólum til að kynna starfsemina. Í dag voru nokkrir krakkar frá skólanum í Árósum. Þau spiluðu agalega fínt á básúnurnar sínar. Seinna í vikunni koma svo einhverjir frá Skotlandi, og næstu vikurnar eftir það koma einhverjir nánast á hverjum degi, þannig að það ætti ekki að vera mikið mál að finna einhverja skóla. Mig langar samt eiginlega ekki til norður Noregs (of kalt) eða Bergen (alltaf rigning). Allt annað kemur til greina. Þá er bara að sækja um í þessa hundruðir skóla sem eftir eru. Alveg óþolandi að þurfa eitthvað að pæla í þessu svona löngu fyrirfram. Næstum heilu ári áður en næsta skólaár hefst. Best væri náttúrulega að ákveða þetta bara daginn áður en skólinn byrjar.

Áðan var lúðrasveitahittingur hér. Það komu tvær lúðrasveitir í heimsókn. Ein sem æfir hinumegin við götuna og önnur sem er líka í göngufæri við skólann. Alveg ótrúlegt hvað fólk nennir að spila mikið í lúðrasveitum hérna. Og þessi líka leiðinlegu lögin. Eiginlega öll lögin sem hinar sveitirnar spiluðu voru alveg eins. Held að okkar lög hafi verið meira mismunandi, eða kannski er maður bara hættur að taka eftir því að lögin sem maður spilar eru öll eins. Hvað veit maður. Þessi hittingur var eins konar æfing fyrir lúðrasveitarkeppni sem er eftir 10 daga. Einhverra hluta vegna fæ ég ótrúlega mikinn bjánahroll þegar ég hugsa til þess að vera að fara að taka þátt í slíku. Hvað er hægt að vera mikill nörd! En hér í landi lúðrasveita virðist þetta bara vera þokkalega kúl.

Einhvern vegin hefur það svo lekið út í lúðrasveitarkallinn að ég hef samið 1 fyrir lúðrasveit. Hann vill náttúrulega fá það til spilunar. Og hann vill að ég stjórni því sjálf. Veit nú ekki alveg um það, en og þó. Verður hálf óglatt af tilhugsununni um að þurfa að spila það enn einu sinni þannig að kannski er ágætis tilbreyting að stjórna í staðinn. Hef allavega tekið þetta mál til umhugsunar.

Um næstu helgi fæ ég sennilega að spila með Stórsveit hússins. Vantar staðgengil fyrir einn spilarann. Það er ágætis tilbreyting frá lúðrasveitardæminu. Undarlegt samt hvað djassnemendur eru oft með leiðinlegt viðhorf gagnvart annarri tegund tónlistar. Eru að öllu jöfnu alfarið á móti því að spila með í annars konar samspilshópum nema þeir séu hreinlega neyddir til þess. Þetta þykir mér í meira lagi undarlegt. Auðvitað hlýtur maður að vilja vera með í sem flestu. Er það ekki?