Saturday, January 21, 2006

Afrek dagsins

Það var bara ansi gaman í nýárs/þorrapartýinu. Mikið drukkið, en í þetta skipti ákváðu skipuleggendur samkomunnar að hafa partýið bara í 4 tíma í staðinn fyrir 7. Jólapartýið var nefnilega ansi langt fyrir marga. Þetta var mun passlegri lengd á slíkri samkomu.

Í dag var þriggja tíma námskeið um kvikmyndatónlist. Afar áhugavert. Og svo voru tveggja tíma kór- og strengjaleikaratónleikar undir lok dagsins. Þeir sem voru að syngja og spila á þeim tónleikum eru að fara í ferðalag á morgun og verða burtu fram á miðvikudag. Það eru u.þ.b. 2/3 af öllum nemendum skólans sem yfirgefa svæðið af þessarri ástæðu þannig að næstu daga verður mjög fámennt hér í skólanum. Það verður örugglega frábært að vera hér meðan svona margir eru í burtu.

Fékk atvinnutilboð í dag. Ekki það fyrsta í þessari viku. En í þetta skiptið gat ég ekki sagt nei. Var bara of þreytt. Þannig að ég vinn í 3 tíma á þriðjudaginn.

Af fjölskyldunni er það helst að frétta að systir mín hin óléttari stefnir óðum í að ná meðgöngutíma fíls.