Vöfflur og bjór
Í gær var hópferð á barinn. Tilefnið var í og með ítarleg kynning á áfengislöggjöf skóla vors sem tók bróðurpart skólatíma gærdagsins. Það voru nefnilega ansi margir teknir fyrir áfengisneyslu og gríðarlegan hávaða því fylgjandi á skólasvæðinu eftir nýárs/þorrapartýið sem fram fór fyrir sléttri viku síðan. Eiga þeir nemendur sem hlut eiga að máli sennilega von á tímabundinni brottvísum innan skamms tíma.
Barferð þessi tókst með miklum ágætum. Það voru bakaðar vöfflur á barnum frameftir nóttu og þær gefnar gestum staðarins. Sá viðburður var í boði einhvers skóla sem ég kann enginn deili á. Ansi hreint spes að borða vöfflur með bjór.
Einn nemandi míns skóla ákvað að stofna eigið leigubílafyrirtæki sem tók að sér að skutlast með nemendur heim af barnum fyrir hálft verð almennra leigubíla hér í bænum. Örugglega hægt að græða helling á því ef áhugi er fyrir hendi. Einnig skilst mér að búið sé að stofna útvarpsstöð skólans. Ekki annað hægt að gera en dást að dugnaði nemenda skólans þessa dagana.
Í dag áttu ein stelpa í skólanum og Mozart afmæli. Þau voru samtals 270 ára.
Spurning dagsins er hins vegar þessi:
Er ég orðin móðursystir? Hef grun um að ég verði ekki ein af þeim fyrstu sem fréttir það. Efast stórlega um að ég hafi lent á “þeir sem fá að vita fyrstir sms-lista”. Þannig að ég verð líklega að bíða eftir að eitthvað komi um viðburðinn á bloggi systurinnar. Hin systirin er búin að panta að fá að vera “uppáhaldsfrænkan” þannig að ég sæki um titilinn “ókunnuga frænkan sem fær kannski að vita hvors kyns krakkinn er áður en hann/hún/það nær 10 ára aldri”. Er farið að líða soldið eins og löngu gleymda fjarskylda ættingjanum sem flutti til útlanda fyrir alllöngu síðan.
<< Home