Monday, January 23, 2006

Vinnur

Nú eru norsk skólayfirvöld farin að leggja mig í einelti. Er búin að fá 3 atvinnutilboð (afleysinga) síðustu 8 daga. Auðvitað gat ég ekki sagt nei við þeim öllum. Bara því fyrsta. Þannig að á morgun er ég í skólanum frá 8-16 og að kenna frá 15-20:30. Eins og glöggir lesendur sjá gengur þetta plan ekki alveg upp.

Það að segja nei við svona vinnum er í rauninni ekki svo erfitt. Það eru hins vegar spurningarnar sem koma eftir “nei-ið” sem eru fullkomlega óþolandi.

Svona ætti símtal af þessu tagi að vera:
Maður/kona í síma: Hæ. Viltu vinna á morgun?
Ég: Nei
M/K: Ókei bæ.

En svona er þettta ekki. Heldur svona:
M/K: Hæ. Viltu vinna á morgun?
Ég: Nei.
M/K: En veistu kannski um einhvern sem vill það?
(Það sem mig langar til að segja: Ertu eitthvað rugluð/ruglaður! Ég er útlendingur og þekki bara fólkið í skólanum mínum. Og það vill að sjálfsögðu ekki gera þetta af sömu ástæðu og ég.)
Ég: Nei, því miður.
M/K: U. Ókei. Má ég kannski hringja í þig seinna ef það vantar einhverntímann aftur einhvern í afleysingar.
(Það sem mig langar að segja: Nei!)
Ég: Ja, þú getur svosum reynt það en ég er nú frekar upptekin á þriðjudögum.

Svo virðist nefnilega sem allir kennslutímar í saxófónleik á svæðinu eigi sér stað á þriðjudögum. Og það er einmitt eini dagurinn sem ég er í skólanum alveg frá átta til fjögur.

Held ég reyni að fá framhaldsnámskeið í að segja nei.

Og nú finnst mér alveg ágætt að vera að fara í ferðalag í næstu viku. Hef þá allavega pottþétta afsökun til að vinna ekki á meðan.