Thursday, February 16, 2006

Frí og frí og afmæli

Í dag á ég afmæli ... eina ferðina enn. Það er rétt sem mig grunaði. Í Útlandinu á maður miklu oftar afmæli. Í dag var semsagt haldið uppá afmæli allra sem eiga afmæli í fríum. Við fengum blöðrur. Nú er ég búin að eiga afmæli tvisvar á þessu ári og afmælið mitt er ekki fyrr en í desember! Ef þetta heldur svona áfram verð ég orðin fertug áður en árið er liðið.

Annars er ég að búa mig undir laaangt helgarfrí. Frí föstudag, laugardag, sunnudag og mestallan mánudaginn. Spurning um að fara á langt fyllerí eða leggjast í þunglyndi. Og svo er vetrarfrí í þarnæstu viku. Þá er ég í fríi föstudag, laugardag, sunnudag, mánudag, þriðjudag, miðvikudag, fimmtudag, föstudag, laugardag og sunnudag. Hélt reyndar að ég væri í inntökuprófi í Gautaborg einhverja af þessum dögum, en komst að því áðan að svo er ekki. Og ég veit þá ekki enn hvenær neitt inntökupróf er. Verð að viðurkenna að ég er orðin frekar þreytt á að bíða eftir upplýsingum um þessi próf. Veit nefnilega hvorki tímasetningu né heldur hvað í andsk.... ég á eiginlega að gera í þessum prófum. Jú í Osló á ég að spila eitthvað og eitthvað fleira líka. En í Gautaborg veit ég ekkert hvað á að ske. Held ég eigi ekki að spila neitt. Bara tala um sjálfa mig .... eða eitthvað. Vona bara að ég þurfi ekki að tala á sænsku. Það kann ég nefnilega ekki.