Komin heim og orðin móðursystir
Þá er maður loksins orðinn móðursystir. Ef einhver vill vita meira um barnið eða sjá mynd af því er viðkomandi bent á bloggsíðu systurinnar (sjá tengil hér til vinstri). Takiði sérstaklega eftir þessum ótrúlega flotta Mikkamús náttgalla. Engu líkur.
Kom annars heim úr Tónleikaferð dauðans #2 í gærkveld. Verð að viðurkenna að þessi ferð var mun skárri en ég bjóst við (bjóst reyndar við svo ótrúlegum leiðindum og þreytu að ég hélt að mér væri jafnvel bráður bani búinn). Er semsagt enn lifandi.
Ferðalagið varði í fjóra daga og þrjár nætur. Eftirfarandi var gert í þessari ferð:
- Setið í rútu í ca. 40 tíma.
- Sofið í ca. 18 tíma
- Borðað nokkrum sinnum
- Spilaðir 5 tónleikar
- Heimsótt 1 stelpa úr Húsi E
Sá liður sem síðast var talinn upp var án efa sá skemmtilegasti. Maður verður nefnilega ansi þreyttur á að umgangast 80 manns allan sólarhringinn. Við fórum bara þrjár í heimsókn til Hús E stelpunnar. Ágætis pása frá mannmergðinni.
Annars var þetta ótrúlega meðfærilegur hópur fólks. Allir gerðu nákvæmilega það sem þeim var sagt að gera. Og það var ekki allt gáfulegt. M.a. að vakna um miðja nótt til að vera á brunavakt, vakna ELDsnemma alla morgnana (og þá meina ég meðan það var enn nótt) og bera fullt af drasli inn og út úr hinum ýmsustu tónleikastöðum. Og það kvartaði enginn yfir neinu alla ferðina. Það var með ólíkindum.
Við vorum aðallega í Bergen og svæðinu þar í kring og ég vissi ekki að það væru til svona mörg jarðgöng í öllum heiminum. Seinni helmingurinn af leiðinni til/frá Bergen (ca. 5 tímar) var meira inni í göngum en ekki.
Í tilefni af þessari “frábæru” ferð er meira eða minna frí í skólanum alveg fram yfir helgi.
Á eftir eru tónleikar hér í skólanum. Á efnisskránni er m.a. verk eftir tónsmíðakennarann minn sem saxófónkennarinn minn spilar. Það verður áhugavert. Býst reyndar við hinu versta (að sjálfsögðu) þar sem þessir tónleikar voru auglýstir sem nútímatónleikar. Þá er bara að finna út hvernig maður getur sagt “þetta var nú aldeilis hundleiðinlegt” á kurteisislegan hátt. Einhverjar hugmyndir?
<< Home