Monday, February 06, 2006

Veikin

er komin í heimsókn í Hús E. Að því tilefni er ég búin að liggja í rúminu frá því á föstudagskvöld. Þetta er án efa versta veikin sem sótt hefur skólann heim þetta skólaárið. Efast ekki um að flestir nemendur skólans eigi eftir að fá Veikina. Veikin lýsir sér í slatta af hita og hósta. Ágætis tilbreyting frá öllu horinu. Aðrir íbúar hússins eru frekar uggandi yfir ástandinu. Það getur nefnilega verið hættulegt þegar gamalt fólk fær svona mikinn hita. En þau eru búin að vera voða góð við Gömlu sína í veikindunum. Þó undarlegt megi virðast hafa aðrir íbúar Húss E sloppið við Veikina enn sem komið er. Vona bara að þau sleppi alfarið við hana.

Annars er nú ekkert svo slæmt að vera veikur. Maður þarf ekkert að pæla í hvað maður eigi að gera. Maður getur bara gert eitt: Legið í rúminu. Manni leiðist ekkert. Er bara alltof sloj til að pæla í því hvort það sé gaman eða ekki. Ef maður vill ekki vera með hita getur maður tekið hitalækkandi lyf. Það finnst mér reyndar ekki gott af því að þá breytist maður í poll, og ég er meira fyrir að vera í þokkalega föstu formi.

En nú er ég allavega komin fram úr rúminu. Verð eiginlega að vera á löppum í fyrramálið líka af því að þá á að byrja að æfa Ostalagið fyrir alvöru. Það á víst að reyna að spila eitthvað af því á tónleikum seinnpartinn í febrúar. Og mér tókst að koma mér undan því að stjórna sjálf. Það er fínt, þá spila ég bara sama part og venjulega.

Nú í vikunni hlaut ég hið virðulega viðurnefni “Gamla” í Húsi E. Skil bara ekkert í þeim að hafa ekki byrjað fyrr að kalla mig “Gömlu”.