Partý og örorka
Nú er búið að vera vetrarfrí síðan um hádegi og alveg skuggalega margir nemendur ennþá á svæðinu. Örugglega 20 manns og það er langt liðið á kvöld. Bíst við að flestir fari til síns heima í nótt eða snemma í fyrramálið, en ég veit að einhverjir djassstrákar verða fram á sunnudag. Þeir eru held ég að fara í prufuspil einhversstaðar á mánudaginn. Þannig að á sunnudagskvöldið verðum við Berglind líklega orðnar einar á svæðinu. Þá verður sko partý. Er búin að fá lykil að öllum herbergjum skólans þannig að partýið getur dreift sér yfir ansi stórt svæði.
Skilaði í dag inntökuheimaprófinu í skólanum í Osló (næstum tveimur vikum of snemma). Það var nú eiginlega bara gaman að gera það próf. Það var reyndar einn hluti af því sem mér fannst frekar asnalegur. Þurfti að senda inn eina handskrifaða tónsmíð. Þar sem ég hef aldrei handskrifað neina tónsmíð þurfti ég að setjast niður og handskrifa eitthvað sem ég hafði áður samið á tölvu. Asnalegt. En hversu mikið mál getur verið að handskrifa smávegis? Komst að því að það er ansi mikið mál. Varð eiginlega mesta málið af öllu í þessu blessaða prófi. Sat allt miðvikudagskvöldið við að handskrifa tónverkið, og kláraði það. Var með náladofa í þumalputtanum eftir það, og er enn, tveimur sólarhringum síðar. Efast stórlega um að ég eigi nokkurntímann eftir að fá fulla tilfinningu í þennan putta aftur. Þannig að “handskrifa” -hlutinn af prófinu hefur sennilegast kostað mig varanlega örorku.
<< Home