Vetrarfríið að byrja
og nemendur skólans farnir að tínast til síns heima. Þó byrjar fríið í rauninni ekki fyrr en um hádegi á morgun, en margir eru ekki í neinum tímum fyrir hádegi á föstudögum. Í Húsi E erum við nú 3 eftir (held ég) og um hádegi á laugardaginn verð ég orðin ein heima (partý!). Staðsetning á mér verður nú eitthvað á reiki á meðan á fríinu stendur. Verð í Húsi E um helgina, sennilega í Osló á mánudaginn, Húsi E á þriðjudaginn og í Gautaborg miðvikudag til laugardags. Þá daga sem ég verð þar verð ég kannski ekki í símasambandi (þá veistu það mamma).
Annars er vikan búin að vera með líflegra móti. Þessa dagana snýst flest um inntökupróf í hina ýmsustu skóla. Fengum um síðustu helgi einkunnir úr tónfræðahluta inntökuprófsins, sem gildir í öllum tónlistarháskólum í Noregi. Það var reyndar strax ljóst að það var eitthvað mikið athugavert við þær niðurstöður. Krakkar sem höfðu farið í ca. 2 tónheyrnartíma á ævinni voru að fá nánast fullt hús stiga í tónheyrnarhlutanum á meðan aðrir, sem höfðu tekið prófið í fyrra líka (og náð), voru að fá næstum engin stig. Nokkrum dögum síðar kom það í ljós að allir þeir sem voru með eftirnafn sem byrjaði á F eða síðar í stafrófinu, höfðu fengið vitlausar einkunnir. Þvílíkt bull! Þannig sumir sem höfðu fengið að vita að þeir hefðu náð, féllu í rauninni og öfugt. Í mínu tilviki kom þetta ekki að sök. Náði í báðum tilvikum, fékk bara aðeins hærri einkunnir í seinna skiptið.
Það eru líka búin að vera tilraunaprufuspil hér í skólanum. Þar fá þeir sem vilja, prófa að spila við svipaðar aðstæður og í alvöru prufuspili. Fékk að vera einn af prófdómurunum í túbuprufuspilinu. Það var stuð. Spilaði líka sjálf eitt svona plat-prufuspil. Það var líka alveg ágætt. Er reyndar orðin alveg hundleið á þessum blessuðu lögum sem ég á að spila (og nenni næstum aldrei að æfa mig) og finnst því eiginlega alveg óþarflega langt í þetta (rúmar 2 vikur).
En allavega, alveg að koma frí.
<< Home