Friday, September 08, 2006

Fullt að gerast

Nennti loksins að taka aðeins til í herberginu mínu í dag. Nennti samt ekki að gera það neitt vel þar sem ég hyggst flytjast búferlum eftir 3 vikur, og snúrudraslið á skrifborðinu er eiginlega ekki hægt að minnka með auðveldu móti. Eftir þessar 3 vikur mun ég verða búsett í ponsulítilli íbúð í miðborg Osló. Að þeim tímamótum loknum mun ég hafa haft fasta búsetu á 4 stöðum á þessu ári. Það mun vera persónulegt met. Einnig mun ég þá hafa haft lögheimili á 4 stöðum á þessu ári, ef ég tel íslenska lögheimilið með (Egilsstaðir city, óstaðsett í hús. Einsog róni).

Annars er ég eiginlega alltaf í skólanum, og eyði þar töluverðum tíma í kjallaranum, þar sem hljóðupptökuverið er staðsett. Þar lærum við aðeins á upptökugræjurnar og tökum upp ýmislegt skemmtilegt. Verst að það er frekar kalt í stúdíóinu. Var þar í 5 tíma í morgun og var alveg að frjósa. Sé fram á að vera þar í allt að 3 tíma í kvöld. Spurning um að taka lopapeysuna með.

Og nú er það komið á hreint að ég heimsæki heimalandið um miðjan október í eina viku. Þökk sé Lúðrasveit Reykjavíkur. En þau hyggjast spila eitt lag eftir mig á hausttónleikum sínum. Kláraði einmitt að útsetja það í gær. Samdi það nefnilega ekki fyrir lúðrasveit, heldur brassband, en fékk það aldrei flutt í þeirri útgáfu. Held að þetta sé alveg þokkalegt. En það kemur í ljós.

Það er semsagt fullt að gerast.