Sannar hetjur
Um miðnætti gerðist það í fyrsta sinn síðan ég flutti hingað í blokkina, að brunavarnarkerfið fór í gang. Að því tilefni prófaði ég tröppurnar í húsinu í fyrsta sinn. Ekki eins langt og ég bjóst við að labba upp og niður af 9. Það er bannað að nota lyfturnar þegar brunavarnarkerfið er í gangi.
Íbúarnir hópuðust út á stétt og myndaðist afar skemmtileg stemming. Ástæða uppþotsins reyndist vera gleymska við eldamennsku á 1. hæð. Eftir nokkurra mínútna bið mætti slökkviliðsbíllinn, og út úr honum stigu tveir slökkviliðsmenn í fullum herklæðum (með súrefniskúta og allt). Var þeim tekið fagnandi með lófataki og teknar af þeim ljósmyndir, eins og sæmir þegar sannar hetjur eða kvikmyndastjörnur eiga í hlut.
Þeir slökktu á kerfinu og við máttum fara inn að sofa.
<< Home