Monday, October 23, 2006

Stuttir dagar og einn langur

Helgin var stutt. Ástæða þess var svefn í gríðarlegu magni. Tókst semsagt að sofa af mér rúmlega helming hvors sólarhrings. Þess á milli var ég dugleg að þrífa heima hjá mér og setja dótið sem ég tók úr geymslu systur minnar á sína staði. Þannig að nú er Gorbatsjov kominn á sinn stað uppá vegg.

Í dag var langur skóladagur. Það var alveg ágætt samt. Byrjaði í nýju fagi. Vissi reyndar fyrri helminginn af tímanum hvorki hver þessi maður var sem var að kenna, né heldur hvaða fag hann var að kenna. Það stemmdi nefnilega ekki við það sem stóð á stundaskránni. Komst að líklegri niðurstöðu fyrir lok tímans (sem var 5 klukkutímar).

Ég fann líka Bókina mína (sjá nokkrum færslum neðar). Og hvar haldiði að hún hafi verið? Jú, auðvitað hjá Konunni sem veit. Hitti ekkert á hana áður en ég hélt af landi brott. En í dag var hún á sínum stað, og vissi að sjálfsögðu um Bókina.